140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:27]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Jú, ég er sammála hv. þingmanni í því að þessir skattar bitna verulega hart á þeim einstaklingum sem nýta þennan samgöngumáta vítt um landið. En ég bendi jafnframt á að það er líka dýrt að ferðast á höfuðborgarsvæðinu. Tími er peningar og það kostar sitt að ferðast um á því svæði. Það vill bara svo til að í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir og samkvæmt tillögum og samþykkt sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu hafa menn gert samkomulag um það að fresta stórframkvæmdum og leggja meira upp úr almenningssamgöngum og hjólastígum. Ég held að það sé hið besta mál.

Ég tel að forgangsröðunin í þessum verkum þurfi að vera sú að styrkja samgöngukerfið úti um landið, bæði með viðhaldi og nýbyggingum þar sem það á við, einfaldlega vegna þess að við sjáum þær breytingar verða í byggðamunstri landsins sem krefjast þess að fólk, ef við viljum halda svæðum þokkalega vel í byggð, verður þá að eiga möguleika á því að hafa sem greiðastar samgöngur á milli kjarna sem veita tiltekna þjónustu. Það er bara einfaldlega þannig í mínum huga.