140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var líka í eina tíð haldinn Kollabúðarfundur. (Gripið fram í.) Það hefur ýmislegt samkomulag verið gert í tímans rás sem við getum að sjálfsögðu ekki verið bundin af hér sem Alþingi enda fannst mér hv. þingmaður viðurkenna það. Þess vegna velti ég svolítið fyrir mér hvers vegna verið er að vísa til svokallaðra heiðursmannasamkomulaga sem eru jafnvel áratugagömul og margar alþingiskosningar liðnar frá því að þau voru gerð. En það er gott að heyra það að þingmaðurinn vill ekki rugla röðinni á Norðfjarðargöngum og Dýrafjarðargöngum enda held ég að þingmaðurinn hljóti að vera mér sammála um að það séu brýnustu samgönguframkvæmdirnar sem við þurfum að ráðast í eins og sakir standa. Þar af leiðandi tel ég að það ætti að vera heiðursmannasamkomulag um það í þinginu að rugga þeim bát ekki of mikið. Ég veit hins vegar ekki hvort þingmaðurinn tekur undir það.