140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:33]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég veit ekki hvort maður ætti að koma við í Kollafirði, kátur allan daginn. Ég tel enga ástæðu til að fara svo langt aftur, einfaldlega í ljósi þess sem ég hef sagt, að það er 25–30 ára saga bak við þau jarðgöng sem við höfum verið að ræða núna. Meira að segja á þessum þremur áratugum eru þau verkefni sem þar var um rætt ekki öll komin til framkvæmda. Við erum hins vegar að sjá aðeins í tærnar á einu þeirra, Norðfjarðargöngum. Það er ekki lengri tímaspönnin í þessu efni. Á þeim grunni byggi ég þau sjónarmið mín að mér finnst ósköp eðlilegt að virða þau sjónarmið sem Seyðfirðingar setja fram. Ég á ekki að þurfa að fara mjög mörgum orðum um það. Það er ósköp eðlilegt að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þeir seldu sig undir fyrir alllöngu.