140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að við hv. þingmaður deilum ekki alveg skoðunum þegar kemur að því hverjir eiga að byggja, eiga og reka samgöngumannvirki. Skoðun þess sem hér stendur er sú að samgöngumannvirki eigi að vera í opinberri eign. Þetta er hluti af grunnþjónustunni og þeim félagslega þætti sem á að vera sameign okkar allra.

Hv. þingmaður sagði áðan að Vegagerðin yrði alltaf að hafa tekjur af umferðinni. Ég hef verið að skoða þetta og hef bent á að samkvæmt fjárlagafrumvarpi þessa árs er gert ráð fyrir því að tekjur af ökutækjum nemi 54 milljörðum. Þar af er ráðgert að tekjur af eldsneyti nemi 21 milljarði. Skatttekjur ríkissjóðs hafa aukist gríðarlega frá árinu 2008, um 160%, vegna hækkunar á vörugjaldi en á sama tíma verjum við einungis 15,7 milljörðum til Vegagerðarinnar, þ.e. samgöngumannvirkja, viðhalds vega og þess háttar. Það eru einungis um 30% af því sem innheimt er af ökutækjunum.

Nú eru skiptar skoðanir um það hvort eyrnamerkja eigi þetta með beinum hætti eða ekki og hvort tekjur af umferð eigi að renna beint til samgöngumannvirkja. Ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann að því heldur hvað hann telji eðlilegt að hátt hlutfall af tekjum af ökutækjum renni áfram til vegagerðar og samgöngumála. Er 30% eðlilegt í þessu samhengi eða ættum við að vera að tala um 50, 70 eða 80? Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Er eðlilegt (Forseti hringir.) að 30% af tekjum af ökutækjum renni til samgöngumannvirkja og vegagerðar? Er það nægilega há fjárhæð að mati hv. þingmanns?