140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum um samgönguáætlun til næstu tíu ára. Þegar þessi áætlun kom fram voru margir sem gagnrýndu áætlunina, sveitarfélög, þingmenn, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, nokkrir þingmenn notuðu þau orð að þetta væri metnaðarlaust plagg og ein af metnaðarlausari samgönguáætlunum sem gerðar hefðu verið.

Þegar umræður um málið voru hér við fyrri umr. lýsti ég því yfir að ég mundi binda vonir við að umhverfis- og samgöngunefnd mundi taka áætlunina til gagngerra breytinga. Það var einkum og sér í lagi vegna ummæla margra stjórnarliða um málið sem sögðu að gera þyrfti gagngerar breytingar á samgönguáætlun ellegar yrði hún ekki samþykkt á Alþingi. Ákveðnar breytingar hafa verið gerðar frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar en því miður eru þær ekki í neinu samræmi við þau ummæli sem voru við fyrri umr. um mikilvægi þess að flýta framkvæmdum á ákveðnum landsvæðum.

Mig langar í upphafi að rifja það aðeins upp sem ég hef verið að benda á og kom fram í umsögnum og meðferð málsins hjá umhverfis- og samgöngunefnd, þ.e. þá staðreynd að samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að tekjur af ökutækjum nemi 54 milljörðum kr. Það er sem sagt ráðgert að skatttekjur ríkissjóðs af umferðinni í landinu, af bifreiðunum, af eldsneytinu, af almenningi og fyrirtækjum sem þurfa að notast við bifreiðar, séu 54 milljarðar. Þar af er gert ráð fyrir að 21 milljarður sé vegna skatttekna af eldsneyti.

Skatttekjur vegna vörugjalds af eldsneyti hafa hækkað um 163% frá árinu 2008. Á sama tíma og ríkissjóður innheimtir 54 milljarða af umferð landsins er einungis gert ráð fyrir að verja 15,7 milljörðum ár hvert til vegagerðar sem gera um 30%. Nú kann einhverjum að finnast, og það hefur komið fram í umræðunni, að það sé kannski ekki eðlilegt að allar tekjur af ökutækjum renni til samgöngumála en ég held að við hljótum að geta verið sammála um það að 30% af skatttekjum sem koma af umferð landsins er gríðarlega lágt hlutfall, að 30% renni til samgöngumála.

Í ljósi þess hversu lágt hlutfall rennur til samgöngumála af skatttekjum af ökutækjum er það verulega sérstakt þegar talað er um það í tillögum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að ekki sé mögulegt að auka við samgönguframkvæmdir nema frumvarp um veiðileyfagjald verði samþykkt á þinginu. Það er alls óljóst hver afdrif frumvarpsins verða, gríðarlegur ágreiningur er um það, um útfærslu, upphæð og síðan hvert veiðigjaldið skuli renna, því að það eru breytingartillögur hér í þinginu, m.a. frá þingmönnum stjórnarliðsins, um að þetta veiðigjald renni ekki í ríkissjóð heldur beint til sveitarfélaga vítt og breitt um landið, til þeirra sveitarfélaga þar sem fyrirtækin eru staðsett sem þurfa að greiða þetta veiðigjald.

Það liggur því ekkert fyrir á þessum tímapunkti um að þessi grunnur undir samgönguáætluninni sem að mati meiri hlutans er veiðigjaldið út frá breytingartillögunum, að þeir fjármunir muni innheimtast inn í ríkissjóð. Og verulega sérstakt að nota þau rök á sama tíma og einungis 30% af þeim tekjum sem innheimtast af skatttekjum sem lagðar eru á umferðina í landinu og ökutækin renna til samgöngumála.

Ég held að ekki þurfi að fjölyrða neitt um það ef við skoðum hver staðan er vítt og breitt um landið í samgöngumálum, hver staðan er hjá verktökum í landinu. Nýlega var eitt verktakafyrirtæki, KNH, tekið til gjaldþrotaskipta. Flestar ef ekki allar vinnuvélar í eigu þess fyrirtækis voru keyrðar beint á hafnarbakkann og fluttar úr landi. Fróðir menn sem þekkja til í þessum geira, og komu meira að segja fyrir umhverfis- og samgöngunefnd, segja að ljóst sé að þar var verið að flytja tæki úr landi á gríðarlegu undirverði. Það er vegna falls íslensku krónunnar. Þessi tæki voru flutt hingað inn fyrir hrun en verið var að flytja þau út núna á undirverði. Og það er alveg ljóst að á næstu árum, eftir þrjú, fjögur ár, munum við þurfa að hefja innflutning aftur á miklu magni af vinnuvélum, því að það blasir bara við að viðhalda þarf vegum landsins og fleira. Þá verður að hefja innflutning á nýjan leik og gríðarlegir fjármunir tapast vegna þess að við erum að flytja þessi tæki út á undirverði.

Starfsmenn sem unnu hjá þeim fyrirtækjum sem hafa orðið verkefnalaus eru flestir komnir til Noregs og eru þar í verktakavinnu með tilheyrandi kostnaði fyrir íslenskan ríkissjóð.

Ef við förum yfir stöðuna vítt og breitt um landið kom það fram við fyrri umr. og í meðförum málsins í umhverfis- og samgöngunefnd að mörg sveitarfélög búa við algjörlega óviðunandi samgöngur. Í þeirri samgönguáætlun sem birtist okkur og þeim breytingartillögum frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar eða þeirri stefnumörkun sem ríkisstjórnin setur í þessum málaflokki, sýn þeirra til næstu tíu ára, er því miður ekki verið að gefa þeim svæðum mikla von. Við horfum upp á það að á þeim svæðum þar sem vegir eru nánast ónýtir, lélegir malarvegir, umferð fer vaxandi, akstur til og frá vinnu fer vaxandi og lengri vegalengdir, er ekki ráðgert að setja neina fjármuni í samgönguframkvæmdir á mörgum þessara svæða, hvort heldur er á næstu fjórum árum eða á næstu tíu árum eins og stóra samgönguáætlunin gerir ráð fyrir.

Í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar kom fram, bæði hjá fulltrúum Vegagerðarinnar og fleiri aðilum, að allt of litlum fjármunum hafi verið varið til viðhalds samgöngumannvirkja á undanförnum árum. Sumir vilja meina að á síðustu fjórum, fimm árum hafi einungis 30–40% af þeim fjármunum sem nauðsynlegir eru til viðhaldsframkvæmda verið varið til viðhalds samgöngumannvirkja, ljóst sé að vegakerfið er að eldast og að ríkissjóður muni lenda í verulegum skelli eftir X-langan tíma. Umferðin er að vaxa og við sjáum aukinn straum ferðafólks til landsins. Þetta samhliða litlum fjárveitingum til viðhalds og auknum umferðarþunga getur ekki haft nema gríðarlegan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.

Sá sem hér stendur hefur lagt fram nokkrar breytingartillögur við þessa samgönguáætlun og unnið að nefndaráliti ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni. Ég ætla að gera grein fyrir nokkrum þeirra, með leyfi forseta.

Eins og segir í nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar er það mat hans að þeim forsendum sem meiri hlutinn gefur sér að verði náð með breytingartillögunum sé á engan hátt fullnægt, forsendunum um nauðsynlegt viðhald, umferðaröryggi, byggðasjónarmið og forgangsröðun.

Meiri hlutinn heldur því fram í nefndaráliti að með breytingartillögum og með samgönguáætlun sé verið að koma til móts við þessi sjónarmið.

Minni hluti gerir eftirtaldar breytingartillögur:

Að gengið verði lengra í því að flýta brýnum samgöngubótum og viðhaldi. Minni hlutinn leggur til að flýta framkvæmdum við tengivegi með því að sett verði aukið fjármagn í þessar framkvæmdir á fyrsta og öðru tímabili samgönguáætlunar. Minni hlutinn áréttar mikilvægi þess að sett verði aukið fjármagn í þessar framkvæmdir þar sem tengivegir eru tæpur helmingur alls vegakerfisins. Um sé að ræða gríðarlegar samgöngubætur og um leið skapar þetta atvinnu heima í héraði.

Eins og ég sagði áðan eru margir tengivega þannig á sig komnir að þeir þola engan veginn þá umferð sem fer um þá í dag. Því miður er allt of algengt að við fáum fréttir af því að ferðamenn lendi í vandræðum á þeim vegum, malarvegum, vegna þess að þeir hafa ekki reynslu af því að keyra við slíkar aðstæður. Hægt væri að koma í veg fyrir stóran hluta slysa og óhappa sem verða ár hvert vegna þessa ef sett yrði aukið fjármagn til að bæta tengivegi.

Minni hlutinn leggur til að framkvæmdum við breikkun einbreiðra brúa verði flýtt enn frekar. Það er mat minni hlutans að framkvæmdir þessar séu mikilvæg öryggisráðstöfun en einbreiðar brýr auka töluvert slysahættu á þjóðvegum, sérstaklega þjóðvegi 1 og fjölförnum leiðum.

Lagt er til að flýta framkvæmdum við liðinn „breikkun brúa“ þannig að 250 millj. kr. skiptist jafnt á fjögur tímabil samgönguáætlunar.

Frú forseti. Þarna er um gríðarlegt öryggismál að ræða. Það eru fáar framkvæmdir jafnmannaflsfrekar og brúarframkvæmdir. Ég held að mjög heppilegt væri við núverandi aðstæður þar sem lítið er um verkefni hjá litlum og meðalstórum verktakafyrirtækjum og einyrkjum í verktakabransa, að fá slík verkefni sem hafa víðtæk áhrif á samfélagið. Það eru líka gríðarleg öryggissjónarmið sem þarna búa að baki.

Einnig leggur minni hlutinn til að framkvæmdum við Hornafjarðarfljót verði flýtt og þær hefjist árið 2014. Það er mat minni hlutans að ný brú yfir Hornafjarðarfljót sé mikil samgöngubót á þjóðvegi 1 og fyrir byggðarlagið en ljóst er að brýn þörf er á því að ráðast sem fyrst í þessar framkvæmdir. Ný brú hefur í för með sér aukið umferðaröryggi og 11 km styttingu á þjóðvegi 1 og mun fækka einbreiðum brúm um sex. Verkefnið er auk þess mjög arðsamt og þar að auki ein forsenda sameiningar sveitarfélaga á þessu landsvæði.

Minni hlutinn leggur til að framkvæmdum við endurgerð vegar um Veiðileysuháls í Árneshreppi verði flýtt um tvö ár. Minni hlutinn áréttar mikilvægi þess að framkvæmdin sé mikilvægt byggðamál sem bætir vetrarsamgöngur til Árneshrepps. Árneshreppur á Ströndum er á margan hátt einstök jaðarbyggð, landfræðilega afmarkaður, tiltölulega þéttbýll og þar er að finna minjar um búsetu, atvinnuhætti og sögu þjóðarinnar. Lagt er til að þjóðin taki höndum saman um að treysta búsetu í Árneshreppi á Ströndum. Meginframkvæmdir eigi sér stað á næstu fjórum árum en vinnunni ljúki á gildistíma samgönguáætlunar. Íbúar Árneshrepps hafa sýnt mikinn dugnað og frumkvæði í að byggja upp stoðgreinar eins og ferðaþjónustu með hefðbundnum búskap og trilluútgerð. Talið er að um tíu þúsund manns hafi heimsótt svæðið árlega yfir sumartímann. Hins vegar er nú komið að þolmörkum áframhaldandi heilsársbúsetu og mikilvægt að Alþingi, fyrir hönd þjóðarinnar, komi að með myndarlegum og afdráttarlausum hætti og leggi sitt af mörkum til að tryggja byggð og heilsársbúsetu í Árneshreppi. Ástand samgöngumála á Ströndum er með öllu óviðunandi, sérstaklega að vetrarlagi.

Frú forseti. Af því að ríkisstjórnin kennir sig við jafnrétti er það gríðarlega mikilvægt að jafnrétti sé líka út frá byggðarsjónamiðum. Sveitarfélag eins og Árneshreppur sem er algjörlega einangraður stóran hluta vetrarins, þar er ekki eðlilegur snjómokstur — það getur ekki gengið. Það er mjög eðlilegt að kallað sé eftir víðtækri sátt og breiðri samstöðu um að vegalagningu í Árneshreppi verði lokið á næstu fjórum árum, þ.e. fyrsta hluta samgönguáætlunarinnar.

Þegar hreppsnefnd Árneshrepps kom fyrir umhverfis- og samgöngunefnd var fróðlegt að heyra sögur þeirra íbúa sem þar eru og eru að berjast fyrir bættum samgöngum, vandamálin við að koma aðföngum á staðinn. Þar er stunduð útgerð, grásleppuútgerð og fleira. Það er gríðarlegur vandi við að flytja afurðir á markað úr Árneshreppnum. Það er gríðarlega mikilvægt að við sem þjóð flýtum þeim framkvæmdum. Það er einnig mikilvægt ef litið er til aukins fjölda ferðamanna sem koma hingað til lands og skoða sögu og menningu landsins, þá er Árneshreppur mikil gullperla, mikil perla. Þetta er verkefni sem svo sannarlega ætti að myndast breið samstaða um.

Ég verð að segja, frú forseti, að það voru mér mikil vonbrigði að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar skildi ekki stíga fastar til jarðar í þessu máli og koma skýrum skilaboðum til íbúa þessa sveitarfélags um að komið verið á góðum samgöngum þar á næstu fjórum árum. Ég held nefnilega að það sé rétt sem margir halda fram sem þekkja til á Ströndum og í Árneshreppi að mikilvægt sé að bregðast skjótt við vegna þess að það fer hver að verða síðastur. Það er mjög erfitt að halda úti sveitarfélagi sem er algjörlega einangrað allan veturinn. Það er mjög erfitt hjá sveitarstjórninni og erfiðlega gengur að laða að ungt fólk til að flytjast í þetta byggðarlag. Það eru svo sannarlega möguleikar þarna fyrir hendi, í ferðaþjónustu, í atvinnuuppbyggingu, útgerð, landbúnaði og fleiru. En vandinn er þessi samgönguþáttur.

Frú forseti. Síðan er lagt til að frekari fjármunir verði veittir, um 2 milljarðar, í viðhald samgöngumannvirkja sem mundi skiptast jafnt á samgöngutímabilið. Það er einfaldlega bara í fullum takti við það sem Vegagerðin og fleiri hafa haldið fram. Það liggur alveg ljóst fyrir að vegakerfið er að eldast. Allir sem þekkja til og fylgjast með þessum málum hafa sagt að það fjármagn sem ætlað er muni ekki duga. Það fjármagn muni ekki duga sem gert er ráð fyrir í breytingartillögum. Mikilvægt er að við viðurkennum að viðhald samgöngumannvirkja er með þeim hætti að það er ekki eitthvað sem hægt er að fresta út í hið óendanlega, ef því er frestað mjög lengi verður kostnaðurinn miklu, miklu hærri en hann er í dag.

Ég minni aftur á ummæli þeirra sem til þekkja að einungis hafi verið varið um 40% af því sem þarf til viðhalds á undanförnum árum.

Ég verð að segja, frú forseti, að mjög hóflega er gengið fram þessu nefndaráliti og breytingartillögunum. Bent er á nauðsynleg samgöngumannvirki, samgönguframkvæmdir. Það verður einfaldlega að flýta einstaka verkefnum. Síðan eru það malarvegirnir og viðhald vega, eins og ég hef rakið, og mikilvægi þess að aukið sé til þeirra þátta.

Tími minn er því miður á þrotum. Ég ætlaði að ná því að fara aðeins yfir tillögur meiri hlutans og samgönguáætlunina og fleiri einstök verkefni vítt og breitt um landið, ég bið því (Forseti hringir.) frú forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.