140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrt og gott svar. Ég ætla að tengja þetta aðeins við ríkisfjármálin, það er einungis áætlað að í kringum 4 milljarðar verði settir til vegaframkvæmda og viðhalds á næsta ári og rétt rúmlega 3 milljarðar á þarnæsta ári en auðvitað liggja fyrir breytingartillögur. Því spyr ég: Er ekki algjörlega ljóst að ef fram heldur sem horfir og viðhald vegakerfisins verður vanrækt á þennan hátt getum við átt von á því að upp komi stórkostleg vandamál í ríkisfjármálum í framtíðinni þegar stöðugt stærri hluti ríkisteknanna þarf að fara í að reyna að vinna upp þá vanrækslu á viðhaldi sem hefur orðið (Forseti hringir.) síðustu þrjú árin og virðist eiga að verða að minnsta kosti næstu tvö árin?