140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, eins og ég hef sagt áður held ég að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af því hversu lítið er sett til viðhaldsframkvæmda. Ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin ætlar ekki að setja nauðsynlegt fjármagn til viðhalds samgöngumannvirkja er ástæða til að hafa áhyggjur af því hversu lítið ríkisstjórnin er að gera til að efla atvinnu í landinu, efla umgjörð atvinnufyrirtækja þannig að ríkissjóður verði í stakk búinn til að taka þann skell þegar þar að kemur. Ríkisstjórnin virðist nefnilega ætla að fresta nauðsynlegum viðhaldsframkvæmdum, taka skellinn af viðhaldinu í framtíðinni og vinna um leið af fullu kappi að því að draga þróttinn úr einstaklingum (Forseti hringir.) og fyrirtækjum þessa lands. Það eru litlar líkur til þess að ríkissjóður verði í stakk búinn til þess að taka (Forseti hringir.) þennan skell þegar þar að kemur.