140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst rétt að vekja athygli á því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd þingsins hefur ekki fjárveitingavald. Hún hefur hins vegar stefnumótunarvald og í þeirri samgönguáætlun sem hér er lögð fram segir umhverfis- og samgöngunefnd hug sinn til forgangsröðunar þeirra framkvæmda sem fram undan eru. Það er alveg með ólíkindum að heyra þingmanninn þar af leiðandi deila á hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir áherslurnar í breytingartillögum hennar þar sem lagðar eru fram 29 tillögur um flýtingu framkvæmda upp á 2,5 milljarða kr. á ári næstu tíu árin til viðbótar fyrri áætlun, að vísu að sjálfsögðu á grundvelli þeirrar fjárfestingaráætlunar sem ríkisstjórnin hefur kynnt. Ekki getum við eytt öðrum peningum en þeim sem ráð er fyrir gert í ríkisfjármálunum. Þar er sérstök áhersla á tengivegi og viðhaldsverkefni sem þingmaðurinn gerði sérstaklega að umtalsefni.

Þá vil ég nú líka vekja athygli á þeim tillögum sem lúta að verkefnum í kjördæmi þingmannsins sjálfs. Mér fannst þessi ræða satt að segja svolítið sérkennileg, ekki síst í ljósi þess að breytingartillögur hv. þingmanns við samgönguáætlunina eru ekki ýkja margar.