140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mig langar að spyrja hv. þingmann í kjölfar þess andsvars sem hann fékk frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur varðandi það hvort þingmaðurinn væri ekki ánægður með Dýrafjarðargöngin og þá framkvæmd alla, hvort gert sé ráð fyrir að það verði allt saman klárað. Það kom fram í ræðu hv. þingmanns Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur að eitthvað vantaði nú upp á að þetta væri allt saman klappað og klárt í þessari áætlun. Þar sem hv. þingmaðurinn er þingmaður í þessu kjördæmi vildi ég athuga hvort hann gæti aðeins skoðað þetta með mér af því að ég átti heima einu sinni þarna fyrir vestan og hefði áhuga á því að vita hvort þetta sé allt saman klappað og klárt, vegna þess að umræða um Dýrafjarðargöng var þegar hafin þegar ég var þar búsett á árunum 2000–2002.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um forgangsröðunina af því að við þekkjum það öll að ekki er til gríðarlegt fjármagn í ríkiskassanum, hann er frekar í mínus. Hér eru þessi mikilvægu samgönguverkefni öll sem okkur þætti mjög skemmtilegt að sjá verða að veruleika, en auðvitað getur maður ekki eytt margfalt um efni fram. Það er eitt að fara í nýframkvæmdir, síðan er annað að sinna viðhaldi.

Hv. þingmaður fjallaði ítarlega um það í máli sínu að honum þætti þeir fjármunir sem lagðir eru hér til í viðhaldsverkefni ekki vera nægjanlegir. Telur hv. þingmaður að það eigi að bylta tillögunni þannig að lögð verði meiri áhersla á viðhald vega og minni á nýframkvæmdir? Eða telur hv. þingmaður einfaldlega að það eigi að leggja mun meira fé til samgöngumála?