140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvað varðar samgöngumál á Vestfjörðum er eðlilegt að fagna því að Dýrafjarðargöng séu færð framar en við skulum þó horfa á það sem staðreynd að það sem er á fyrsta tímabili samgönguáætlunar er það sem raunverulega skiptir máli hverju sinni. Reynslan hefur sýnt að það sem er á öðru og þriðja tímabili hefur tilhneigingu til að breytast og er fremur óskalisti, ef svo má segja. Fyrsta tímabilið skiptir langmestu máli í þessu samhengi. Því miður eru Dýrafjarðargöng ekki inni á fyrsta tímabili.

Hvað varðar fjármuni sem vantar, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur fyrr í dag, hygg ég að það sé vegna vegalagningar í Gufudalssveit þar sem ekki er gert ráð fyrir fjármunum miðað við nýtt leiðarval. Það hafa verið gríðarlegar deilur og málaferli um leiðarval og um vegalagningu gegnum Teigsskóg sem sumir hafa talað um sem meintan landnámsskóg frá 9. áratug síðustu aldar vegna þess að það er með öllu óskiljanlegt að ekki hafi mátt ráðast í vegaframkvæmdir í gegnum þann skóg. Meðal annars hafa þær stofnanir sem ég vitnaði til áðan, sem hafa fengið auknar fjárveitingar á hverju einasta ári frá því núverandi ríkisstjórn tók við eins og til dæmis Náttúrufræðistofnun, lagst mjög hart gegn þeirri vegalagningu, því miður.

Hvað varðar seinni spurningu hv. þingmanns um fjármuni til viðhaldsframkvæmda verð ég að koma inn á það í seinna andsvari mínu.