140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Rétt vegna fyrra andsvars sem ég náði ekki að svara um viðhald vega. Það er grundvallaratriði að við nýtum fjármagn til viðhalds sem menn telja að þurfi til þess að viðhalda samgöngumannvirkjum landsins. Það er ekki gert samkvæmt þessari áætlun. Það er gert samkvæmt tillögum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, því miður. Það á að vera grundvallaratriðið. Allt þar umfram er það sem við eigum síðan að nýta til nýframkvæmda því kostnaðurinn verður ellegar of mikill.

Varðandi vegalagningu í Árneshreppi eru vissulega gefin jákvæð teikn í langtímaáætlun um að skoða það. Það var gert í samgönguáætlun eins og hún kom fram. Það er gert núna líka. Því er flýtt örlítið, en í ljósi reynslunnar og í ljósi þess sem ég rakti áðan um hvernig samgöngumannvirki sem ekki eru inni á fyrsta tímabili eru eiginlega á óskalista og hafa smám saman færst aftar, eru alltaf á öðru og þriðja tímabili í gegnum söguna, held ég að (Forseti hringir.) við verðum að gefa mjög skýr svör um að það verði hafist handa við vegalagningu í Árneshreppi á fyrsta tímabili (Forseti hringir.) þannig að íbúarnir þar geti raunverulega trúað því, það séu ekki fleiri loforð svikin við þetta litla sveitarfélag sem glímir við (Forseti hringir.) gríðarlega erfiðleika.