140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:55]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég er komin í ræðustól til að fagna því að flýta eigi gerð Norðfjarðarganga. Ég verð hins vegar að lýsa vonbrigðum með að aðeins eigi að leggja 1,2 milljarða í gerð Norðfjarðarganga á næsta ári. Þessar upplýsingar koma fram á breytingartillögum hv. umhverfis- og samgöngunefndar á bls. 10. Ég mun ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni leggja fram breytingartillögu seinna í kvöld sem á að tryggja meira fjármagn til framkvæmdar Norðfjarðarganga á næsta ári, fjármagn sem mun tryggja að framkvæmdin muni ekki taka nema þrjú ár í stað fimm ára eins og nú er gert ráð fyrir.

Það má t.d. geta þess að Fáskrúðsfjarðargöng tóku ekki nema rúm tvö ár þrátt fyrir að ekki væri unnið á sólarhringsvöktum. Það ætti því að vera mögulegt að flýta gerð Norðfjarðarganga, hefjast strax handa á næsta ári og klára þau á þremur árum. Ástæða þess að mér finnst mikilvægt að flýta gerð ganganna er sú að ég ætla ekki að bera ábyrgð á slysi í göngunum. Óhöpp vegna hruns í göngunum eru tíð og vegarkaflinn upp að göngunum er mjög hættulegur. Þar hafa slys einnig verið tíð. Auk þess óttast ég frekari frestun Norðfjarðarganga ef fjármálaráðherra verður veitt heimild til að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga eins og allt virðist stefna í hér á morgun.

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti Vaðlaheiðargöngum. Helstu forsendur fyrir framkvæmdinni eru að göngin muni alfarið standa undir sér með notendagjöldum og lán sem ríkissjóður veiti í verkefnið, sem er áætlað 1,7 milljarðar, fáist að fullu greitt til baka. Vandamálið er hins vegar að framkvæmdin uppfyllir ekki skilyrði þess að vera talin einkaframkvæmd þar sem öll áhætta verkefnisins hvílir á ríkissjóði. Ástæðan er sú að ætlunin er að treysta á að fjárfestar endurfjármagni framkvæmd Vaðlaheiðarganga án ríkisábyrgðar árið 2018. Þurfi ríkissjóður að hlaupa undir bagga við gerð Vaðlaheiðarganga er í raun búið að flýta framkvæmd sem átti ekki að fara í fyrr en að lokið yrði við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng á samgönguáætlun. Að taka eina framkvæmd út úr samgönguáætlun með þessum hætti er mjög slæmt fordæmi og má ekki gerast. Því eigum við þingmenn ekki að taka neina áhættu.

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því hvers vegna Norðfjarðargöng þola enga bið. Verklegar framkvæmdir við göngin áttu að hefjast árið 2009, þeim var frestað til 2011 og í þingsályktunartillögunni sem við ræðum nú í þingsal er gert ráð fyrir frekari frestun allt til ársins 2015. Íbúar á Austurlandi hafa skorað á ríkisstjórnina og Alþingi að hefja framkvæmdir við Norðfjarðargöng eigi síðar en í lok þessa árs. Meiri hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar hyggst koma til móts við þá áskorun og flýta gerð Norðfjarðarganga um eitt ár, eða fram á næsta ár. Hins vegar er að mínu mati of lítið fjármagn veitt til framkvæmdarinnar á næsta ári til að hægt sé að tryggja að göngin klárist á sem skemmstum tíma.

Norðfjarðargöng eru forsenda þess að hægt verði að tryggja öryggi vegfarenda árið um kring. Oddsskarðsgöng uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til umferðaröryggis í nágrannalöndum okkar vegna þess að göngin eru einbreið og í þeim er blindhæð. Þau eru auk þess hættuleg vegna hruns úr bæði lofti og veggjum. Vegurinn upp að göngunum liggur í 623 metra hæð með kröppum og hættulegum beygjum og vegriðið er ekki á öllum veginum þrátt fyrir mikinn hæðarmun víða á honum og umhverfi hans.

Margir íbúar Norðfjarðar veigra sér við að nýta atvinnutækifæri á öðrum stöðum í Fjarðabyggð þar sem þeir þyrftu þá að leggja leið sína um ein hættulegustu göng landsins á hverjum degi í alls konar veðri. Mikil snjóalög og slæmt ástand vegarins upp að göngunum eru ástæða þess að margir íbúar Austurlands eiga þess ekki alltaf kost að nýta þjónustu Fjórðungssjúkrahússins á Neskaupstað og Verkmenntaskólans.

Frú forseti. Ætlunin er að fjármagna flýtingu Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga með hækkun veiðigjaldsins úr 4,5 milljörðum í 24–27 milljarða. Þetta er hækkun sem mun leggjast þungt á mörg lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki og ógna lífsviðurværi margra á landsbyggðinni. Hækkun veiðigjaldsins er of brött. Hana verður að taka í skrefum.

Ein leið sem lögð hefur verið til er að þrýsta á eigendur snjóhengjunnar við afnám gjaldeyrishafta, sem eru þá aflandskrónueigendur og kröfuhafar í gömlu þrotabúunum, að taka þátt í að endurfjármagna skuldir ríkissjóðs á lægri vöxtum en þær eru í dag. Í dag eru skuldir ríkissjóðs 1.400 milljarðar og vaxtakostnaður af þeim er á bilinu 70–80 milljarðar. 1% prósenta vaxtalækkun á skuldum ríkissjóðs gæfi svigrúm upp á 14 milljarða sem mundi duga til að klára Norðfjarðargöng og hefja jafnframt framkvæmdir við Dýrafjarðargöng.

Frú forseti. Það að vilja flýta gerð Norðfjarðarganga þýðir ekki að við séum búin að samþykkja hina miklu hækkun veiðigjaldsins. Þetta er bara spurning um aðrar leiðir, leiðir sem eru nauðsynlegar til að koma atvinnulífinu af stað og felast m.a. í afnámi gjaldeyrishafta og niðurfærslu snjóhengjunnar.

Frú forseti. Ég vil að lokum hvetja þingheim til að samþykkja flýtun Norðfjarðarganga og breytingartillögur sem fela það í sér að hafist verði handa á fullu á næsta ári við gerð Norðfjarðarganga þannig að þau klárist á þremur árum. Norðfjarðargöng þola nefnilega enga bið.