140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er sammála henni um mikilvægi þess að fara í þessar samgöngubætur með Norðfjarðargöngum. Þetta er ekki í mínu kjördæmi en ég er auðvitað ekki svo þröngsýnn að ég sjái ekki að líka þurfi að fara í vegabætur utan Norðvesturkjördæmis þó að þörfin þar sé víð mjög brýn. Ég tek undir þær röksemdafærslur sem heimamenn hafa fært fram um mikilvægi þeirra ganga.

Það sem mig langar hins vegar að velta upp er það sem hv. þingmaður kom að aðeins síðar í ræðu sinni þegar hún velti fyrir sér þeim hugmyndum að taka hluta af veiðigjaldinu, sem áformað er að leggja á sjávarútveginn, og ráðstafa með sértækum hætti til vegamála. Ég vil setja þetta í það samhengi að sömuleiðis er í þessari svokölluðu framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir því að taka hluta af arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum annars vegar og sölutekjum vegna sölu á fjármálafyrirtækjum hins vegar og ráðstafa til annarra framkvæmda. Nú hef ég ekki alveg áttað mig á því með hvaða hætti menn ætla að elta þessa peninga þannig að þeir geti sagt að peningarnir rati leið sína beint í vegina, aðrir peningar rati beina leið í græna hagkerfið eða uppbyggingu í menningarmálum eða eitthvað annað.

Hv. þingmaður hefur mjög mikið látið til sín taka þegar við ræðum um ríkisfjármál og þess háttar. Ríkisstjórnin hefur verið að marka þá stefnu að snúa frá því að vera með svokallaðar sértekjur eða sérmarkaða tekjustofna og taka frekar tekjurnar beint í gegnum ríkissjóð og ríkissjóður ráðstafi þeim síðan til þeirra framkvæmda sem Alþingi kemst að niðurstöðu um.

Ég vil spyrja hv. þingmann um þá aðferðafræði að menn reyni að gylla, má kannski segja, hugmyndir um álagningu veiðigjalds og hugmyndir um að selja ríkisbankana og fá arðgreiðslur úr bönkunum. Hvernig líst henni á þá hugmynd að eyrnamerkja þetta með þessum hætti? Er þetta ekki þegar upp er staðið bara hluti af hinum eina stóra ríkissjóði?