140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:07]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hef vissulega áhyggjur af aukinni skattlagningu landsbyggðarinnar, ekki síst í ljósi þess að rannsóknir sýna að stór hluti skattheimtu ríkissjóðs á landsbyggðinni fer ekki til baka út á land. Ef ég man rétt hefur líka verið sýnt fram á að tekjustofnar sem hafa verið eyrnamerktir fara ekki að öllu leyti þangað sem þeir áttu að fara eða í þau verkefni sem þeir voru eyrnamerktir.

Við í Samstöðu, flokki lýðræðis og velferðar, höfum lagt til að komið verði upp svæðisþingum til að tryggja að það séu heimamenn fyrst og fremst sem taki við sífellt stærri hluta þeirra skatttekna sem aflað er úti á landsbyggðinni og úthluti þeim til þeirra verkefna sem eru talin brýnust á hverju svæði. Ég tel t.d. óráðlegt að hækka verulega veiðigjaldið án þess að búið sé að koma upp einhvers konar svæðistengingum sem úthluta gjaldinu í innviði samfélaganna eða jafnvel til atvinnusköpunar á þessum svæðum.