140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður komst ég ekki í að ræða forsendurnar fyrir þeirri útgjaldaaukningu sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar boðar og byggir á þeim tillögum að ráðstafa hluta af svokölluðum veiðiskatti, eða öllu heldur sjávarútvegsskatti því að gjaldið leggst ekki bara á veiðarnar, til vegamála. Ég gagnrýndi það aðeins í andsvari áðan við hv. þm. Lilju Mósesdóttur að farið væri inn á þá braut að eyrnamerkja með þessum hætti einstök viðfangsefni í gegnum einstaka tekjustofna ríkissjóðs. Ég vek athygli á því að það er stefna ríkisstjórnarinnar að hverfa frá svona eyrnamerkingum, en þarna er verið að leggja þær til. Það er augljóst hvað er verið að gera. Það er verið að gylla hugmyndina um veiðiskattinn, sjávarútvegsskattinn, með því að segja að hann sé forsendan fyrir því að hægt sé að fara í þessar framkvæmdir. Fyrir utan það tel ég þetta allt saman á mjög veikum grunni reist.

Eins og bent hefur verið á og komið hefur hérna fram í umræðum um meðal annars veiðiskattinn byggir hann algjörlega á því að gengi íslensku krónunnar verði um fyrirsjáanlega framtíð jafnveikt og það er í dag. Það kann út af fyrir sig að vera rétt forsenda miðað við það sem menn hafa bent á, þ.e. að upptaka veiðiskattsins muni sennilega frekar stuðla að lægra gengi íslensku krónunnar. Kannski er það hugsunin í þessu að halda genginu lágu til að geta búið til tekjur í gegnum þennan veiðiskatt til þess að fjármagna síðan vegaframkvæmdir.

Ég hef miklar efasemdir um þetta allt saman og að það muni standast til nokkurrar frambúðar, enda kannski fyrst og fremst hugsað fyrir því að tjalda til einnar nætur eða a.m.k. fram yfir kosningarnar.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður mig hvort ég telji að 30% tekna af ökutækjum, hygg ég að hann hafi sagt, renni til vegamála. Auðvitað er ég þeirrar skoðunar að við þyrftum að hafa meira fjármagn til vegamála. Ég get út af fyrir sig svarað því þannig að ég hefði talið að sem hlutfall af þessum tekjum væri skynsamlegt að við fengjum meiri fjármuni til vegamála, en ég hef mínar efasemdir almennt talað um eyrnamerkingu á tekjustofnum (Forseti hringir.) og held mig því bara við þann lista.