140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gert ráð fyrir 6,4 milljörðum íslenskra króna í Vestfjarðaveg 60 á tímabilinu 2011–2018. Þar af er gert ráð fyrir að 3,2 milljarðar fari í veginn um Gufudalssveit á tímabilinu 2015–2018. Ástæða þess að þeir fjármunir eru settir inn á það framkvæmdatímabil eru nákvæmlega þeir erfiðleikar sem þingmanninum er kunnugt um sem lúta að leiðarvalinu og vandræðagangi varðandi það.

Fyrri samgönguráðherrum, og þar á meðal flokksbróður hv. þingmanns, hæstv. samgönguráðherra Sturlu Böðvarssyni, tókst ekki að koma góðum láglendisvegi þarna um í bullandi góðæri. Það var ekki vegna þess að skorti fé, heldur vegna þess að uppi voru vandkvæði sem lutu að málaferlum, deilum og öðru. Núna reynir meðal annars á samstöðu og vilja heimamanna um að þeir verði ásáttir um það leiðarval sem verður ofan á, þannig að málið er mjög margþætt og flókið. Við höldum ekkert áfram að deila við dómarann. Það féll hæstaréttardómur sem setti þetta mál allt saman á upphafsstöðu.

Núna þarf að ráða fram úr þessu framtíðarleiðarvali í samráði við heimamenn og komast að niðurstöðu og sátt í héraði um leiðarvalið. Þá munu þessir peningar nýtast vel, skyldum við ætla, þegar þar að kemur, en að sjálfsögðu er ekki raunhæft að gera ráð fyrir því fyrr en á öðru framkvæmdatímabili, enda svo sem nóg við hina 3,2 milljarðana að gera fram að því.