140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í umræður um lok þingstarfa. Nú heyrast fréttir þess efnis að hér stefni í sumarþing. Er það sumarþing til að ræða skuldavanda heimilanna? Nei. Verður það sumarþing til að ræða afnám verðtryggingarinnar? Nei. Verður það sumarþing til að ræða umgjörð atvinnulífsins í landinu? Nei.

Það sem vekur mesta athygli er að fyrir tveim sólarhringum síðan leit allt út fyrir að samningar um þinglok væru að nást. Þeir samningar hefðu falið í sér að mál sem eru seint fram komin, illa unnin og í ósamkomulagi milli stjórnarflokkanna sjálfra hefðu verið lögð til hliðar. Þau hefðu komið inn á haustþingi eins og skynsamlegt hefði verið því það lá ljóst fyrir að ekki var hægt að klára þau miðað við hvernig þau voru unnin.

Hvað gerist síðan? Þessir samningar fóru fram meðan hæstv. forsætisráðherra var erlendis. Hæstv. forsætisráðherra, sem á sínum langa stjórnmálaferli hefur verið boðberi friðar í samskiptum á Alþingi, kemur síðan heim í gærmorgun og þá sýður allt upp úr í þessum samningum og allt er komið á byrjunarreit á nýjan leik. Það er svo, frú forseti, að verkstjórinn yfir þessari ríkisstjórn, hæstv. forsætisráðherra, virðist ekki geta tekið friðinn þegar ófriður er í boði. Þetta er því miður staðreyndin. Þess vegna duttu samningar innan þingsins um að ljúka þingstörfum upp fyrir í gær, m.a. vegna þeirra vinnubragða sem hæstv. forsætisráðherra stendur fyrir og hefur staðið fyrir undanfarin 30 ár á þingi. Því miður erum við ekki að sjá breytingu á því, frú forseti.