140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem kallað hafa eftir skýrslu frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra varðandi stöðu og undirbúning fyrir mögulegt fall evrunnar. Ég vil fá að vekja athygli á því að ég hef nú þegar sent skriflega fyrirspurn til sama hæstv. ráðherra um þetta mál og á von á því að fá svar sem fyrst.

Ég vil halda mig á þessum slóðum. Það bárust af því fréttir í gær að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt að Ísland væri fyrirmynd fyrir önnur Evrópuríki og evruríki um hvernig ætti að standa að stjórn efnahagsmála. Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að hafa nokkur orð um þetta.

Í fyrsta lagi er augljóst, og kom meðal annars fram hjá þeirri fréttaveitu sem hæstv. forsætisráðherra var að ræða við, að einn meginkosturinn fyrir íslenska hagkerfið var sá að vera ekki með evruna og að gengi gjaldmiðilsins gat fallið. Ég er ekki viss um að þau ráð dugi fyrir Evrópusambandið, það er nokkuð augljóst. Hitt er síðan að einn megindrifkraftur efnahagsbatans núna er aukinn útflutningur á sjávarafurðum. Það má ljóst vera að það er ekki heldur úrræði sem ESB á inni.

Virðulegi forseti. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því sem gert hefur verið og lagt til á Alþingi og vil nota tækifærið og vara leiðtoga Evrópusambandsins við þeim aðferðum. Ég vil vara leiðtoga Evrópusambandsins við því að steypa í fullkomna og algera óvissu aðalefnahagsgreinunum, eins og gert hefur verið í sjávarútvegi okkar, vara menn við því að beita sömu vinnubrögðum og hér hefur verið gert, búa til alla þá óvissu sem hæstv. ráðherra hefur búið til. Ég vil vara við því að hleypa til dæmis stjórnarskrármálum í fullkomna óvissu, ég vil vara við því sem hér var reynt, að koma hinum fyrstu Icesave-samningum á þjóðina. Ég vara við slíkum vinnubrögðum.

Það eru vandamál í Evrópu og ekki á að auka á þann vanda með því að taka upp ýmislegt það sem hér hefur verið gert. (Forseti hringir.) En það á líka að benda á það sem hér hefur verið vel gert og er hægt að gera. Hér eru (Forseti hringir.) miklar og góðar auðlindir, vel menntað fólk og traustir innviðir. Það skiptir miklu máli að senda þau skilaboð, virðulegi forseti.