140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ræðuna. Það sem hv. þm. Mörður Árnason gerði var að sýna á spilin sín, hann var eins og í barnagælunni um litla putta spilamann sem kjaftar nú frá. Hann segir okkur frá því að nú hafi menn þau áform uppi að einhvern tíma þegar ríkisstjórnarliðið fer að þreytast — og það er orðið dálítið þreytt eins og við höfum tekið eftir — ætli níu þingmenn að koma fram með tillögu um að ljúka umræðunni og setja á atkvæðagreiðslu. Þetta hygg ég að sé einsdæmi í þingsögunni en nú vitum við það og fyrir það hljótum við að vera hv. þm. Merði Árnasyni ákaflega þakklát.

En hvers vegna erum við í þessari stöðu varðandi þingið? Við vitum öll hver staðan er. Þau mál sem snerta sjávarútveginn eru algerlega óútkljáð og það væri óábyrgt af okkur í stjórnarandstöðunni að fallast á afgreiðslu þeirra nú þegar það liggur fyrir að afleiðingar þeirra yrðu mjög skaðvænlegar fyrir sjávarútveginn.

Menn segja sem svo að það væri gott að eyða óvissunni en þetta væri auðvitað að fara úr öskunni í eldinn. Það blasir við að þegar menn ætla að keyra í gegn frumvörp sem búið er að sýna fram á að muni hafa mjög neikvæð áhrif fyrir sjávarútveginn er mjög óábyrgt af okkur hinum, sem höfum reynt að vara við þeim, að fallast á að afgreiða þau með þeim hætti sem ríkisstjórnin hefur kallað eftir.

Það liggur fyrir eins og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins rakti áðan að við höfum verið tilbúin til að greiða fyrir málum og fjölmörg mál hafi verið afgreidd í gegnum þingið. Gærdagurinn var mjög gott dæmi um það þar sem fjölmörg mál runnu í gegn. En vegna þess að nú blasir við júlíþing vil ég sérstaklega hvetja formann efnahags- og viðskiptanefndar og forustu þeirrar nefndar til að standa við sín stóru orð og afgreiða út úr nefndinni þær tillögur sem nefndin hefur boðað, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur miklu oftar um að gera bragarbót gagnvart heimilunum. Nú gefst sögulegt tækifæri. Nú stefnir í júlíþing og þá höfum við tækifæri (Forseti hringir.) til að afgreiða þessi mál. Ég hvet hv. formann og nefndina til að afgreiða þessi mál umyrðalaust þannig að við getum afgreitt þau sem lög í júlímánuði.