140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli er staðan einhvern veginn svona: Útgerðin á Íslandi græðir milljarðatugi á fisknum í sjónum. Við rekum ríkissjóð Íslands með tapi. Árið 2010 hafði útgerðin 41 milljarð í hagnað af rekstri sínum, greiddi 3 milljarða í veiðigjald og 300 millj. kr. í tekjuskatt. Árið 2011 var enn betra rekstrarár fyrir útgerðina í landinu.

Hér í þessu húsi er tekist á um hvort arðurinn af þessari starfsemi, af fisknum í sjónum, eigi að fara til sumra eða til allra. Um það snýst þessi umræða og hefur gert í tíu daga, í 70 eða 80 klst. Í þessu húsi eru öfl sem berjast fyrir hagsmunum sumra meðan það eru öfl í þessu húsi sem berjast fyrir hagsmunum allra. (Gripið fram í: Hvers konar kjaftæði er þetta?) Og um þetta hefur verið tekist á undanfarna daga, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Hvaða afla?)

Sumarþing er í boði stjórnarandstöðunnar, höfum það alveg á hreinu. (Gripið fram í.) Hér er lýðræðislega kjörinn meiri hluti þingmanna, og gætum að því að það er tryggur meiri hluti fyrir frumvarpi um veiðigjöld eins og það lítur út og kemur frá nefndinni. Minni hlutinn í þessu húsi vill koma í veg fyrir að arðurinn af auðlindinni, okkar dýrmætustu auðlind, renni til allra en ekki sumra. Um það hefur umræðan í þessu húsi snúist í tíu daga samfleytt og við, lýðræðislega kjörinn meiri hluti, ríkisstjórn Íslands og þeir flokkar sem styðja hana og styðja frumvarp um veiðigjöld, ætlum að ná fram þessari kerfisbreytingu.

Arðurinn af fisknum í sjónum (Gripið fram í.) á ekki að renna til sumra heldur til allra, til heildarinnar. Um það er tekist á hér. Við vorum boðin og búin að koma til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar um að stíga til baka með önnur mál en við leggjum áherslu á þetta. Arðurinn af auðlindinni á að renna til allra. Útgerðin græðir milljarðatugi á sínum rekstri á sama tíma og ríkissjóður Íslands er rekinn með tapi. Það gengur ekki, virðulegi forseti. [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að sýna þokkalega ró í þingsal og gefa ræðumanni tækifæri til að ljúka ræðu sinni.)