140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[11:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ef þetta sumarþing er í boði stjórnarandstöðunnar ætla ég að taka mér það bessaleyfi að afboða það í hvelli, svo það sé sagt. Við vitum þá hver býður til þess ef það verður sett á. En það er algerlega fáránlegt af hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að koma hingað og býsnast yfir því að lýðræðið fái sín ekki notið vegna þess að við séum að ræða mál sem eru illa unnin og seint fram komin og þar sem ekki er tekið tillit til athugasemda umsagnaraðila og sérfræðinga. Þetta ætti hv. þingmaður að þekkja mjög vel. Hún býsnast yfir leikreglunum sem við förum eftir og vísar til þess að við séum búin að breyta þingsköpum og getum stoppað umræður hvenær sem okkur hentar, og er þá væntanlega að vísa til 64. gr. þingskapalaga.

Hv. þingmanni til upplýsingar er þetta ekki nýtt ákvæði. Ég held að það séu aðeins tvö dæmi í þingsögunni um að forseti þingsins hafi beitt því ákvæði til að stöðva umræður. Ég get nefnt dæmi: 30. mars 1949. Hvað var að gerast hér 30. mars 1949? Það voru óeirðir á Austurvelli.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og hv. þm. Magnús Orri Schram tala með mikilli vandlætingu um að vera fulltrúar lýðræðislega kjörinna sjónarmiða. Ég ætla að upplýsa um að ég hlaut líka kosningu í lýðræðislegum kosningum (Gripið fram í.) og það var alveg jafnrétthár kjósandi sem kaus mig. En þeim til upplýsingar þá er það þannig að mál fá þá umfjöllun sem þau eiga skilið. Illa unnum málum er að sjálfsögðu mótmælt. Þannig að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir getur tekið upp boðskortin og boðað til sumarþings vegna þess að það er í hennar boði.