140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Í apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigandafundar í Sparisjóðnum í Keflavík á grundvelli heimildar í lögum. FME vék þá stjórn sparisjóðsins frá, skipaði honum bráðabirgðastjórn og mælti fyrir um aðrar nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem að ráðstafa öllum eignum og innstæðum Sparisjóðsins í Keflavík til nýs sparisjóðs, SpKef. Það var gert í kjölfar þess að stjórn sparisjóðsins skilaði inn starfsleyfi sínu þar sem fyrir lá að sjóðurinn uppfyllti ekki starfsleyfi, þrátt fyrir ítrekaða fresti, og sýnt var að tilraunir til að endurskipuleggja fjárhag hans í samvinnu við kröfuhafa eða með stofnfjárframlagi úr ríkissjóði mundu ekki ná fram að ganga.

Rökin fyrir ákvörðuninni um að færa innstæður Sparisjóðsins í Keflavík yfir í nýtt félag koma fram í minnisblaði nefndar um fjármálakerfið sem skrifað var 21. apríl 2010, en í nefndinni voru fulltrúar frá forsætis-, fjármála-, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, FME og Seðlabanka Íslands. Það var mat nefndarinnar að staða Sparisjóðsins í Keflavík hafi verið þannig að nauðsynlegt væri að Fjármálaeftirlitið tæki við stjórn sparisjóðsins og færi með innstæður og eignir til nýs fjármálafyrirtækis. Taldi nefndin þetta nauðsynlegt til að tryggja fjármálastöðugleika og viðhalda eins og kostur væri óskertum og truflunarlausum aðgangi að innstæðum og bankaþjónustu fyrir viðskiptamenn sparisjóðsins eins og stjórnvöld höfðu heitið öllum innlendum innstæðueigendum, líka Suðurnesjamönnum, virðulegi forseti, og öðrum viðskiptavinum Sparisjóðsins í Keflavík.

Að frumkvæði Bankasýslu ríkisins var ákveðið að viðtökufélag eigna og innstæða sparisjóðsins yrði einnig sparisjóður. Á þeim tíma var almenn samstaða um að leitast bæri við að tryggja framtíð sparisjóðakerfisins í landinu þrátt fyrir þau áföll sem einstakir sparisjóðir hefðu orðið fyrir við og í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Litið var til þess að umsvif og stærð sparisjóðsins í Keflavík væru slík, með starfssvæði sem spannaði allt frá Suðurnesjum að Húnaþingi með 16 afgreiðslustaði, að sparisjóðurinn hefði alla burði til að verða kjölfesta í endurreistu sparisjóðakerfi í landinu. Hægt var að færa fyrir því gild rök að sparisjóðakerfið allt mundi veikjast verulega á landsvísu ef starfsemi sparisjóðsins yrði hætt.

Líkt og síðar kom í ljós reyndust væntingar til þess að sparisjóðurinn gegndi slíku hlutverki ekki raunhæfar, enda var eignasafnið og staða sjóðsins stórlega ofmetin. Vorið 2010 var verðmæti eigna Sparisjóðsins í Keflavík metið og matið ítrekað skoðað og yfirfarið, m.a. af hálfu FME haustið 2009, af hálfu PricewaterhouseCoopers í nóvember 2009 auk skoðunar Deutsche Bank á yfirferð PricewaterhouseCoopers í mars 2010. Ekki tókst þá að ná samkomulagi við kröfuhafa um afskriftaþörf á skuldum sparisjóðsins og fjárhagslegri endurskipulagningu með þeirra aðkomu og ríkisins. Þegar sparisjóðurinn var tekinn yfir af FME í apríl 2010 gerðu drög að skiptareikningi hans, unnin af PricewaterhouseCoopers fyrir FME, ráð fyrir því að eigið fé hans væri um 5 milljarðar.

Af hálfu fjármálaráðuneytisins, í samvinnu við Bankasýslu ríkisins, var skipuð ný stjórn fyrir SpKef og skipt um helstu stjórnendur. Fjármálaráðuneytið fór fram á það við nýja stjórn og stjórnendur að útlánasafn sparisjóðsins yrði endurmetið frá grunni til að hægt væri að leggja mat á fjármagnsþörf við endurreisn sparisjóðsins og semja um uppgjör við kröfuhafa.

Dómsniðurstöður í svokölluðu gengistryggingamáli og ákvarðanir um úrræði fyrir skuldara og tengdar ákvarðanir höfðu áhrif á verðmæti útlánasafnsins auk þess sem ný stjórn og stjórnendur með nýjum endurskoðendum endurmátu útlánasafnið frá grunni á nýjum forsendum. Bráðabirgðaniðurstaða þessara aðila lá fyrir í lok febrúar 2011 um að eigið fé SpKef sparisjóðs væri neikvætt um 11,2 milljarða kr.

Þessi slæma staða sparisjóðsins varð svo til þess að fallið var frá áformum um að endurreisa hann og samið við Landsbankann hf. um yfirtöku. Var það gert að tillögu Bankasýslu ríkisins. Yfirtökudag Landsbanka á SpKef þann 7. mars 2011 var neikvætt eigið fé sparisjóðsins 13,1 milljarður kr. Landsbankinn lét síðan gera sjálfstætt mat á mismun á eignum og skuldum og niðurstaðan úr því mati var að mismunurinn væri um 30 milljarðar kr. Landsbankinn og Fjármálaeftirlitið náðu ekki samkomulagi um uppgjör og var málinu vísað til úrskurðarnefndar sem skilaði bindandi niðurstöðu upp á rúma 19 milljarða kr.

Það var hárrétt ákvörðun hjá fyrrverandi fjármálaráðherra að fara eftir tillögu Bankasýslu ríkisins og sameina rekstur SpKef Landsbankanum. Reikningurinn vegna þessarar sorgarsögu, sögu síðustu ára Sparisjóðsins í Keflavík, lendir á kunnuglegum stað, hjá skattgreiðendum.