140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:21]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er hverju orði sannara hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur að saga Sparisjóðs Keflavíkur er sorgarsaga, eiginlega harmsaga. Það er ekki sérstaklega beysin útgerð að ætla að slá sérstakar pólitískur keilur á því að gera allt tortryggilegt sem að því kom að reyna að greiða úr þeim ósköpum sem þarna höfðu gerst. Aðkoma ríkisins sem slíks og fjármálaráðuneytisins að málefnum Sparisjóðs Keflavíkur og síðar SpKef er algerlega í samræmi við neyðarlögin og þá aðferðafræði sem mótuð var haustið 2008, hún byggir á þeim lögheimildum og þeim pólitísku yfirlýsingum sem þá voru gefnar um að allar innstæður í bönkum og sparisjóðum á Íslandi yrðu tryggðar og varðar og að bankarnir sem féllu yrðu endurreistir og að ríkið mundi styðja við bakið á sparisjóðunum. Þetta eiga meðal annars þingmenn Sjálfstæðisflokksins að vita mjög vel, þeir voru í meiri hluta og stóðu að ákvörðunum um það undir lok árs 2008 þegar ríkið bað Alþingi um fjárheimildir til að leggja 399 milljarða kr. inn í endurreisn banka og sparisjóða. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson var þá settur fjármálaráðherra í málinu.

Sem betur fer er kostnaðurinn enn þá um eða innan við 200 milljarðar og standa verðmætar eignir þar á móti, í tilviki eignarhlutar í Landsbankanum til dæmis.

Varðandi innlánasöfnun Sparisjóðs Keflavíkur, miðað við upplýsingar sem ég hef, var hún mest á árinu 2008 og inn á árið 2009. Það kemur ekki mikið við sögu í eftirleiknum.

Þetta er sorgarsaga. Mesta ábyrgð á henni bera að sjálfsögðu stjórnendur þessa sparisjóðs. Miðað við upplýsingar sem fram koma þessa dagana ættu menn þeim nákomnir að ganga hægt um gleðinnar dyr þangað til þau kurl eru komin til grafar. En við skulum líka vera sanngjörn og minnast þess að Sparisjóður Keflavíkur tók þátt í afskriftum skulda og samræmdum niðurfellingaraðgerðum, fékk á sig gjaldeyrisdóma (Forseti hringir.) og hafði ekki sömu meðhöndlun á eignasafni sínu og stóru bankarnir sem fengu það fært yfir með afslætti.

Loks hefur það auðvitað haft neikvæð áhrif á Sparisjóð Keflavíkur (Forseti hringir.) og síðar SpKef að ástandið er óvenjuerfitt á starfssvæði hans.