140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er rétt að taka fram að þessi aðgerð hans var ekki í samræmi við neyðarlögin. Neyðarlögin voru sett haustið 2008 í neyð. Þær aðgerðir sem hér um ræðir voru ekki gerðar í neyð, það var ekki sama neyðin og haustið 2008. Þá var gert ráð fyrir að 20% færu í stofnfé sparisjóðanna, það var ekki talað um þá leið sem hér var farin. Hugmyndin var sú að kostnaðurinn mundi ekki lenda á skattgreiðendum. Hér er því um allt annað að ræða. Ég vek athygli á því að þetta gerist eftir hrun, löngu eftir að menn voru búnir að sjá hvað gerðist. Þetta er á ábyrgð ríkisins, Sparisjóður Keflavíkur og SpKef töpuðu 28,8 milljörðum á árunum 2009–2010. (Gripið fram í.) Verulegur kostnaður fór í ráðgjafa, stjórnarlaun og ýmislegt annað. Eignir sjóðsins rýrnuðu einnig á ábyrgð ríkisins.

Á árunum 2009–2010, í gjörgæslu eða á ábyrgð ríkisins, jukust innlán hjá sjóðnum um 8 milljarða. Hlutfall innlána af eignum fór úr 66% í 110%. Efast má um að Sparisjóður Keflavíkur og SpKef hafi uppfyllt lausafjárreglur Seðlabankans á árunum 2009 og 2011. Óútskýrt er hvernig SpKef gat myndað allt að 14 milljarða skuld við Seðlabankann, miðað við fréttir í fjölmiðlum. Á hvaða lagaheimildum byggði sú skuldasöfnun?

Með því að leyfa Sparisjóði Keflavíkur og SpKef að starfa í tæp tvö ár án þess að uppfylla lögbundið eiginfjárhlutfall var aðilum í samkeppni á fjármálamarkaði stórlega mismunað og kostnaður sendur á skattgreiðendur. Það er kjarni málsins.

Við erum að rannsaka hvað gerðist fyrir hrun, sérstaklega hjá sparisjóðunum, og við skulum gera það. Þessi umræða snýst um hvað var gert eftir hrun. Það voru augljóslega gerð stór mistök og kostnaðurinn lendir á skattgreiðendum. Við erum að tala um að kostnaðurinn nemur tvennum og hálfum Vaðlaheiðargöngum, (Forseti hringir.) þetta slagar hátt upp í rekstrarkostnaðinn á Landspítalanum.