140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Alþingi ákvað að láta rannsaka sparisjóðina og hrun sparisjóðakerfisins. Miðað við fréttir sem nú berast um skýrslu til Fjármálaeftirlitsins um Sparisjóð Keflavíkur er ástæða til að kvíða niðurstöðum rannsóknarinnar sem væntanlegar eru í haust. Þangað til skulum við spara okkur stóru orðin um SpKef, ekki síst sjálfstæðismenn.

Sparisjóður Keflavíkur deildi út fé af ábyrgðarleysi og nú er að koma betur og betur í ljós að hann var með eindæmum illa rekinn. Fréttir RÚV og DV um sparisjóðinn vekja fremur hugrenningatengsl við fádæma spillingu en hefðbundinn sparisjóð. Kostnaðurinn sem lendir á skattgreiðendum er um 19 milljarðar vegna þrots Sparisjóðs Keflavíkur. Við skulum ekki gleyma að setja þessa 19 milljarða í samhengi við þau hundruð milljarða króna sem hrunið lagði á herðar skattgreiðendum og notendum opinberrar þjónustu. Við skulum ekki gleyma því að hrunið markaði endalok 18 ára valdatíðar Sjálfstæðisflokksins, pólitísk hugmyndafræði þess flokks er þó óbreytt.

Frú forseti. Mér er illskiljanlegt hvaða hagsmuni tveir af máttarstólpum Sjálfstæðisflokksins eru að verja með þessari umræðu. Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson lýsa nú vandlætingu sinni vegna aðgerða núverandi ríkisstjórnar. Eru þeir að hugsa um hagsmuni almennings eða kann að vera að þeir séu að beina sjónum okkar frá spillingu í eigin röðum?