140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram í umræðu í velferðarnefnd um þetta mál að mjög brýnt er að bregðast hið snarasta við þeim athugasemdum sem komið hafa fram af hálfu Eftirlitsstofnun EFTA. Þetta mál er ekki að koma upp núna í dag eða rétt eftir eða fyrir hrun. Það hefur verið uppi á borðum frá árinu 2004. (Gripið fram í.) Það sem gerist hins vegar er að það verður alger forsendubrestur og markaðsbrestur við bankahrunið á haustdögum 2008 og þær aðstæður skapast sem við búum við. Eftirlitsstofnun EFTA hefur tekið undir að það sé eðlilegt að innleiða þær breytingar sem kallað hefur verið eftir í áföngum á þessum tíma. Það er hins vegar kallað mjög ákveðið eftir því að sú innleiðing eigi sér stað og hún hefði átt að vera komin fram fyrr en raun ber vitni. Þess vegna er brýnt að við ljúkum þessu máli núna en að sama skapi liggur líka skýrt fyrir að innan næstu tveggja ára mun þurfa að taka enn frekar á málum miðað við þær aðstæður sem verða þá og hvernig þróun mála verður á næstu missirum, til að svara frekar þeim ábendingum sem fram hafa komið af hálfu Eftirlitsstofnunarinnar.