140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið. Það var raunar eitt af þeim sjónarmiðum sem ég tók upp innan nefndarinnar að ég teldi ekki alslæmt að þessi vara, eins og hv. þingmaður var að tala um, lán, gæti hækkað í verði við þær kvaðir sem við setjum til að tryggja neytendavernd. Ég tel í raun og veru að það sé betra að búa til fjölbreyttari valkosti á húsnæðismarkaðnum en eru til staðar hér. Ég tel að reynsla fyrir hrun hafi sýnt okkur að það sé ekki endilega best fyrir samfélagsheildina að allir búi í séreign heldur eigi stjórnvöld, sveitarfélög og ríkið að vinna að því að fjölbreyttir valkostir séu í boði og styðja við uppbyggingu leigufélaga og búseturéttarfélaga. Á þetta má líta í ljósi þess að í langflestum nágrannalöndum okkar sem við berum okkur saman við hafa ekki allir möguleika á því að kaupa sér húsnæði. En þá hafa menn lagt áherslu á að þeir hafi aðra möguleika eins og til dæmis að leigja. Ég nefni sem dæmi að í Þýskalandi er jafnvel hægt að leigja til 99 ára, búa bara á sama staðnum í traustu húsnæði sem er hugsað til þess að vera leigt út.

Ég veit að í Danmörku fór stuðningur hins opinbera mjög mikið í að byggja einmitt upp slíka valkosti fremur en að styrkja eða niðurgreiða lán til kaupa á séreign. Það hefur sýnt sig, til dæmis reynslan af undirmálslánum í Bandaríkjunum, að það er ekki best fyrir samfélagsheildina að allir geti tekið lán.