140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:12]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi leggja áherslu á varðandi kostina við að fólk búi frekar í leiguhúsnæði er að þá verður húsnæðið ekki að einhvers konar átthagafjötrum eins og getur gerst þegar fólk kaupir húsnæði. Við höfum séð að þegar það verða áföll eins og urðu hér 2008 er ekki svo auðvelt fyrir fólk að snúa til baka og losa sig við það húsnæði sem það hefur keypt, ólíkt því sem gerist þegar maður er að leigja og hefur ákveðinn uppsagnarfrest samkvæmt lögum. Munurinn liggur náttúrlega í því. Ég heyri það þegar ég ræði við ungt fólk sem horfir til reynslu foreldra sinna eða afa og ömmu, að það mundi að minnsta kosti vilja hafa val um þetta. Ég efast ekki um að hv. þingmaður taki undir að það sé mikilvægt að fólk hafi val og ef það hefur efni á því og vill kaupa húsnæði þá leggur það fé til hliðar til kaupanna. Ég hef lagt fram frumvarp sem felur í sér að auðvelda og styðja við að fólk spari til að eiga eigið fé þegar það kaupir sér húsnæði. Ef það hefur ekki áhuga á því hafi það möguleika á því að leigja. Ég horfi til þess að stuðningur hins opinbera ætti í meira mæli að beinast að því að byggja upp þessi húsnæðisform en ekki við séreignarstefnuna eins og hefur verið undanfarin ár eða áratugi.

Þótt ég hef mikinn áhuga á að ræða verðtrygginguna þá lagði hv. þingmaður fram aðra spurningu um breytingartillögu mína, en hann efast um að hún nái markmiði sínu. Ég lít til reynslunnar hjá Fjármálaeftirlitinu og enn sem komið er hafa ekki komið upp nein tilvik sambærileg við það sem maður hefur séð hjá Seðlabankanum um að þessir eldveggir hafi ekki virkað á milli þrotabúanna og nýju bankanna. Þar eru sjálfstæðir stjórnarmenn og þeim er gert mjög skýrt að það er hlutverk þeirra að gæta fyrst og fremst að hagsmunum viðkomandi leigufélaga. (Forseti hringir.)

Síðan vil ég benda á að það er náttúrlega búið að samþykkja tillögu sem við í verðtryggingarnefnd (Forseti hringir.) lögðum fram um að leyfa Íbúðalánasjóði að lána óverðtryggt. Hann er að undirbúa það og í tillögum okkar lögðum við megináherslu (Forseti hringir.) á að auka valmöguleika fólks og draga úr vægi verðtryggingar.