140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og nefndarálitið sem þingmaðurinn fór yfir. Hv. þingmaður minntist aðeins á það hvaða ráðuneyti fer með málefni sjóðsins. Það hefur verið bent á að það væri kannski nær að færa þetta undir sama ráðherra og önnur fjármálafyrirtæki eru hjá. Ég náði bara ekki alveg að fá á hreint hjá hv. þingmanni eftir ræðuna hvort þingmaðurinn væri á þeirri skoðun að Íbúðalánasjóður ætti í framtíðinni ekki að heyra undir velferðarráðherra.

Þetta er ein af þeim spurningum sem ég tel að við þurfum að fara yfir og þess vegna kallaði ég eftir því að við færum ítarlegar yfir þetta mál og skoðuðum á heildstæðan hátt breytingar á Íbúðalánasjóði. Hér er samt verið að tala um markaðsbrest og mér finnst nefndin ekki hafa kannað það til hlítar hvar og í hverju sá markaðsbrestur er fólginn og reynt að átta sig á því til hve langs tíma aðstæður gætu verið óbreyttar.

Flestar erlendar eftirlitsstofnanir sem hafa fylgst með efnahagsmálum á Íslandi hafa ítrekað varað við þátttöku ríkisins í almennum íbúðalánum og hvatt til þess að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði takmörkuð við lán til þeirra sem hafa lágar tekjur eða þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Hér förum við að mínu mati það skammt að við erum hvorki að svara athugasemdum ESA né undirbúa okkur nægjanlega undir þá gagnrýni sem þessar lagabreytingar munu hafa í för með sér. Við munum ekki geta svarað fyrir það af hverju við göngum svona skammt þegar við fáum næsta athugasemdapakka frá útlöndum.