140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Meðan Íbúðalánasjóður skipar svona stóran sess í því að fjármagna fasteignakaup hér á landi hefur hann gríðarleg áhrif á efnahaginn í heild sinni og meðal annars þess vegna hefur efnahags- og viðskiptaráðherra skilað skýrslu um framtíðarskipan fjármálakerfisins þar sem talað er um að ná meiri heildarsýn yfir hlutina. Miðað við þá skýrslu er þetta nokkuð sem við ættum að skoða, hvort sjóðurinn eigi þá ekki að fara yfir ef hann á að vera svona stór sem mönnum finnst greinilega fyrst þeir eru að leggja til þessar breytingar. Hvernig ætlum við að hafa þetta til framtíðar? Við vorum líka með í höndunum og til meðferðar í þinginu rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem farið var yfir starfsemi Íbúðalánasjóðs og þessari spurningu velt upp. Þar eru nokkrar blaðsíður sem menn geta lesið þegar þeir fara yfir mál sem þessi með tilliti til þess að skipa sjóðnum einhverja framtíð. Á hann að vera svona stór? Mér sýnist það. Á hann að hafa þetta mikla markaðshlutdeild? Mér sýnist að það sé skoðun meiri hluta nefndarinnar. Hvað erum við þá með í höndunum? Erum við þá með félagslegan sjóð eða bara stofnun á vegum ríkisins sem lánar í samkeppni við einkabanka fjármuni til fasteignakaupa?