140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sú breytingartillaga sem hv. þm. Eygló Harðardóttir leggur til á málinu bæti þetta allverulega. En ég hnýt um orð hv. þingmanns þegar hún svarar þeirri spurningu hvort skynsamlegt sé að Íbúðalánasjóður sé enn í opinberri eigu, líkt og Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir, þá orðar hv. þingmaður það svo: miðað við ástandið og í augnablikinu skuli ekki einkavæða.

Það hefði verið gott að fá þetta aðeins skýrara. Ef við horfum til framtíðar, ef við horfum 10–15 ár fram í tímann, er þá ekki skynsamlegt að styrkja og efla Íbúðalánasjóð á þeim grunni sem hann hefur verið, á samfélagslegum og félagslegum grunni? Telur hv. þingmaður það enn skynsamlegt, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn talaði fyrir á sínum tíma, að einkavæða Íbúðalánasjóð?

Mér finnst margt benda til þess miðað við það hvernig hv. þingmaður talar að miðað við ástandið eins og það er í dag, í augnablikinu, sé það ekki skynsamlegt. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að Íbúðalánasjóður eigi, eins og segir í nefndarálitinu, að gegna lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði og mikilvægt sé að tryggja áframhaldandi starfsemi hans og hann verði ekki einkavæddur. Ég hefði viljað að hv. þingmaður væri eilítið skýrari í máli sínu gagnvart þessari framtíðarsýn til lengri tíma.