140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA er því aldrei svarað nákvæmlega hvort það sem verið er að gera sé hæfilega gott eða vont. Svo virðist sem menn geti sætt sig við þær breytingar sem verið er að gera um einhvern ákveðinn tíma en eins og fram kom í minni ræðu og ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar þarf að endurskoða aftur innan tveggja ára þessa þætti til að kröfum sé fullnægt. Þannig er það og þess vegna legg ég áherslu á að við erum að taka hænuskref í stað þess að við hefðum átt að fara betur ofan í saumana á athugasemdunum og reyna að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til okkar samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem við höfum undir í dag, eins og EES-samninginn. Við erum ekki að uppfylla það og við mætum ekki þeim kröfum sem gerðar eru til okkar.

Ég verð hins vegar að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég held að það nýmæli sem verið er að setja á laggirnar í þessu frumvarpi um leigufélög í eigu Íbúðalánasjóðs sé ekki kröfur af hálfu EFTA og í mínum huga munu þau klárlega ekki samræmast því að Íbúðalánasjóður leigi slík leigufélög enda er hér skýrt og skorinort tekið fram að þetta sé tímabundið verkefni Íbúðalánasjóðs vegna þeirra íbúða sem hann hefur þurft að taka til sín eftir hrun sem og allra þeirra íbúða sem Íbúðalánasjóður þurfti að taka til sín fyrir hrun.