140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Forsendur fyrir Vaðlaheiðargöngum hafa alla tíð verið skýrar. Þeim forsendum hefur ekki verið fullnægt, fjarri lagi. Þess vegna hefur ekki verið unnt að fjármagna framkvæmdina á aðgengilegum markaðskjörum og þar af leiðandi er þetta ríkislán.

Ég tek undir með meiri hluta samgöngunefndar að þessi framkvæmd eigi eins og aðrar samgönguframkvæmdir þar sem ríkissjóður er fjármögnunaraðili hvort sem er að öllu leyti eða að hluta til að fara inn í samgönguáætlun. Fyrir afstöðu minni hef ég gert ítarlega grein, m.a. við umræðu um málið á Alþingi. Ég get því ekki stutt þetta mál og lá sú afstaða mín fyrir þegar málið var afgreitt úr ríkisstjórn.