140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég mun greiða þessari miklu samgöngubót atkvæði mitt með ánægju, að baki liggur sú sannfæring að hér verði um mikið framfaramál að ræða. Í hlut á ein fjölfarnasta leið á þjóðveginum frá Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu til Norðausturlands og Austfjarða. Leiðin sem verður stytt leysir af hólmi erfiðan fjallveg. Þetta mun spara þjóðarbúinu eldsneyti og slit á bílum, þetta mun minnka losun gróðurhúsalofttegunda, þetta mun efla byggð og möguleika atvinnulífs, menningar og mannlífs á viðkomandi svæði. Við þessa miklu og þörfu framkvæmd eru bundnar miklar vonir í þessum landshluta.

Ég spái því að þegar frá líður muni Vaðlaheiðargöng teljast meðal lykilmannvirkja í samgöngukerfi landsins og verði þá jafnað við Borgarfjarðarbrúna, Hvalfjarðargöng, Vestfjarðagöng og önnur slík tímamót í okkar samgöngum sem hafa tvímælalaust bætt lífskjör í landinu og gert Ísland byggilegra og betra land.