140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:11]
Horfa

Árni Johnsen (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Frumkvæði heimamanna í þessu máli og fjármögnun er hróssverð. Þetta er mögnuð og mikilvæg framkvæmd sem allt bendir til að verði sjálfbær, ella ef allt færi á versta veg framkvæmd á tombóluverði fyrir ríkissjóð. Þetta er eina sjáanlega framkvæmdin í tíð núverandi ríkisstjórnar og því ber að fagna. Nú er að hefjast handa við næstu göng á Austurlandi og Vestfjörðum.

Ég vek athygli á því að sá er hér stendur hefur alltaf haft rétt fyrir sér í jarðgangamálum á Íslandi. [Hlátur í þingsal.] Ef menn hefðu haft höfuð á sínum tíma væru menn núna að aka á milli lands og Eyja en ekki að berjast við náttúruöflin eins og er. Þannig getum við lært af reynslunni.

Ég fagna þessari framkvæmd og segi já.