140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:14]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Samgöngubætur snúast um mannréttindi. Í þessu tilviki munu þær tengja saman byggðarlög, efla byggðarlög og þjóðarhag. Reynslan af samgöngubótum, jafnveigamiklum samgöngubótum og felast í jarðgangagerð, hefur alltaf verið með þeim hætti að samgöngumannvirki hafa verið notuð meira en spár gerðu ráð fyrir. Svo verður um þessi göng.

Það er ástæða til á þessum tímamótum að þakka fyrir þá breiðu, ríku og einörðu samstöðu sem hefur verið um verkið heima í héraði. Sú samstaða hefur verið til fyrirmyndar og við þingmenn getum lært eitthvað af þeirri samstöðu. Þvert á sveitarfélög og þvert á flokka hafa menn sameinast um þetta mál sem verður sveitarfélögunum á Norðurlandi til heilla, svo og þjóðinni.