140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:15]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Enginn efast um að Vaðlaheiðargöng verða góð samgönguframkvæmd og skipta máli fyrir viðkomandi hérað. Hins vegar verða menn að sækja slíkt mál á réttum og sönnum forsendum. Eins og komið hefur í ljós í umræðunni er hér um beina ríkisframkvæmd að ræða. Ég leyfi mér að vitna í nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun þar sem segir:

„Ekki er hægt að samþykkja Vaðlaheiðargöng án samhengis við almenna forgangsröðun jarðganga í landinu enda væri þá verið að brjóta gegn sanngjörnum vinnureglum. Gerð Vaðlaheiðarganga á fyrirliggjandi forsendum riðlar eðlilegri forgangsröðun framkvæmda og kallar á uppstokkun og endurmat á þeirri nálgun sem hingað til hefur verið fylgt.“

Ef niðurstaðan verður sú að menn samþykkja að fara í Vaðlaheiðargöng þá eiga Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng að koma um leið. Þau eiga að mínu mati að vera framar í þeirri brýnu forgangsröð sem Alþingi ber að afgreiða í gegnum samgönguáætlun. Ekki á að afgreiða Vaðlaheiðargöng bakdyramegin í gegnum þingið.