140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:19]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég styð þessa framkvæmd. Það eru eiginlega allir sammála um ágæti hennar, fáir sem mæla gegn henni. Fyrst og fremst er tekist á um röð þeirra framkvæmda sem fyrir liggja í jarðgöngum á Íslandi og það sýnir fyrst og fremst hversu skynsamleg þessi ákvörðun er.

Ég hef stutt þessa framkvæmd í umhverfis- og samgöngunefnd og verið þar í minni hluta. Það er í fínu lagi. Það er ágætur meiri hluti fyrir málinu í þinginu og greiða verður atkvæði um það hvernig menn vilja raða þessum framkvæmdum. Forsenda þess að hægt er að taka þessi göng fram yfir önnur er sú að heimamenn eru reiðubúnir að greiða fyrir þau. Þetta er gott mál og ég styð það.