140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:23]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við loksins atkvæði um heimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Þessi jarðgangagerð er kannski ekki brýnasta samgöngubót dagsins í dag en hún er afar þörf og hún verður fjármögnuð með veggjöldum. Þess vegna er verið að fara í þessa framkvæmd.

Gátlisti vegna framkvæmdarinnar gæti verið einhvern veginn svona: Bætt umferðaröryggi? Já. Stytting vegalengda? Já. Stækkun atvinnusvæðis? Já. Stækkun þjónustusvæðis? Já. Samstaða á svæðinu um verkefnið? Já. Atvinnusköpun? Já. Efnahagsleg hagkvæmni? Já. Og mér finnst þessi sjö já vega algerlega upp á móti óvissu sem hefur verið til umræðu um það hvort veggjöld munu ná að greiða allan kostnað við framkvæmdina.

Nú þegar er gert ráð fyrir 7% óvissu. Áætlanir um umferð eru varfærnislegar og þótt einhver kostnaður falli á ríkið er framkvæmdin afar hagstæð fyrir ríkissjóð. Ég segi því já með gleði í hjarta.