140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég styð framkvæmdir. Ég styð sérstaklega samgönguframkvæmdir á landsbyggðinni. Mér finnst það hins vegar nokkuð merkilegt að þessi risaframkvæmd skuli vera sú eina á vegferð ríkisstjórnarinnar undir lok kjörtímabilsins sem kemur hingað í atkvæðagreiðslu eftir mjög umdeildan feril.

Heimamenn eiga mikið hrós skilið fyrir samstöðu og hvernig þeir hafa staðið að verkefninu. Því miður get ég hins vegar ekki stutt það vegna fjármögnunaraðferðarinnar og vegna þess hvernig að hlutunum hefur verið staðið. Ég hefði kosið að ef við fyndum leið til að blanda saman ríkisaðstoð og einkaframkvæmd yrði það fordæmi gefið út þannig að fleiri slíkar framkvæmdir gætu þá farið í sama farveg. Ég óttast fordæmið og lýsi ábyrgð á fjármögnuninni á hendur þeim sem koma til með að styðja þetta. Ég vona og veit að framkvæmdin verður góð og mun skila miklu en ég get ekki stutt hana vegna þeirrar fjármögnunarleiðar sem er valin.