140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Frá upphafi hefur verið rætt um að gerð Vaðlaheiðarganga væri sérstakt verkefni sem ekki ætti að falla undir samgönguáætlun vegna þess að þeir sem munu nota göngin munu greiða fyrir það sérstakt gjald. Sá tími er nú runninn upp að við erum að greiða atkvæði um það hvort þessi brýna samgöngubót verði að veruleika eða ekki. Ég ætla að greiða því atkvæði mitt. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða sem mun tengja saman atvinnusvæði í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði. Það er með mikilli gleði sem ég segi já við þeirri brýnu framkvæmd en um leið hvet ég hv. þingmenn til að stuðla að enn frekari metnaði í samgöngubótum hér á landi, ég get nefnt Norðfjarðargöng, göng á Vestfjörðum og fleiri brýnar samgöngubætur í þeim efnum og við eigum að standa saman að því. Þess vegna er ég mjög ánægður með að það stefni allt í það að meiri hluti þingsins muni samþykkja þá framkvæmd sem við ræðum hér um. Ég segi já.