140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:36]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir vont að það skuli vera búið að koma þessu máli þannig fyrir að val margra hv. þingmanna sé annars vegar að styðja vegaframkvæmd sem menn telja að sé skynsamleg og hins vegar að taka afstöðu til þess hvort menn sætti sig við það hvernig staðið er að fjármögnun og hvernig staðið er að vinnulaginu í þinginu. Ég tel, og það ræður mínu atkvæði, að verið sé að fara fram hjá vegáætlun og verið sé að fara fram hjá því hvernig við stöndum að fjármögnun slíkra framkvæmda, þ.e. verið er að lána þessu fyrirtæki 8,7 milljarða sem ég tel að sé augljós fjárfesting og eigi að horfa á sem slíka. Um er að ræða ríkisframkvæmd. Það er augljóst.

Það er hættulegt fordæmi sem myndast með þessu. Það er hættulegt fordæmi að fara fram hjá vegáætlun og það er hættulegt fordæmi að kalla augljósa fjárfestingu lán. Það er það sem ræður mínu atkvæði og mér finnst vont hvernig að þessu máli hefur verið staðið í þinginu. Því segi ég nei, virðulegi forseti.