140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:38]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér er verið að taka úr sambandi lög um ríkisábyrgðir. Hvers vegna höfum við slík lög á Íslandi? Það er kannski ástæðan fyrir þingmenn að spyrja sig að því. Það er til að menn leiðist ekki út í grískar bókhaldsæfingar eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti á áðan.

Síðast voru lög um ríkisábyrgð numin úr gildi í stjórnartíð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar þegar þeir vildu veita vini sínum, Kára Stefánssyni, deCODE og Íslenskri erfðagreiningu, ríkisábyrgð á lán. Afturganga þeirra ræður ríkjum í þingsal í dag í gervi hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og hæstv. ráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, hvers kjördæmi og endurkjör eru undir í þessu máli. Þetta snýst nefnilega fyrst og fremst um það, áframhaldandi kjördæmaskiptingu, kjördæmapot og endurkjör þingmanna kjördæmisins. (Gripið fram í: Þetta eru ómagaorð.)