140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:11]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Geirssyni fyrir ágæta spurningu. Ég hef aðeins hugsað þetta mál og er þeirrar skoðunar að það sé ágætt að hafa leiguíbúðir á Íslandi, hafa framboð á mismunandi tegundum húsnæðis, þrátt fyrir að ég sé í grunninn þeirrar skoðunar að hér eigi íbúðarhúsnæði að vera séreign. Og þá verða að vera valmöguleikar. Ég hef talað um að ég hefði viljað sjá leiguíbúðir Íbúðalánasjóðs og bankanna, eða íbúðir sem fullnustueignir, fara í sérstakt félag sem ríkið mundi eiga annars vegar og bankarnir hins vegar. Síðan væri hægt að fara með það félag á markað í framtíðinni. Ég hefði haldið að þetta leigufélag, ríkið, gæti tekið eignirnar af Íbúðalánasjóði í skiptum fyrir ríkisskuldabréf sem er fullgild eign hjá Íbúðalánasjóði til að fjármagna sjóðinn og losa þar af leiðandi þessar eignir frá Íbúðalánasjóði inn í slíkt leigufélag sem bankarnir kæmu líka með eignir inn í. Í framhaldinu gæti það orðið almenningshlutafélag skráð á markaði sem mundi sinna þessari þörf fyrir leiguíbúðir í öllu landinu. Þannig gætum við aukið fjölbreytnina og leigan yrði þá á markaðsforsendum, ekki á forsendum einhvers sem væri með fullnustueignir sem hann væri að reyna að kroppa einhverjar krónur af, (Forseti hringir.) jafnvel niðurgreitt eins og Íbúðalánasjóður getur gert eins og staðan er í dag.