140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er algerlega bráðnauðsynlegt að Íbúðalánasjóður verji eignir sínar vegna þess að nóg er komið af tapinu þótt þessar eignir yrðu ekki látnar einhvern veginn drabbast niður eða seldar á slikk. Ég er líka sammála því að þessi leið gæti verið byrjunin á því sem ég var að tala um áðan, að hér komi fram stórt leigufélag sem ætti eignir á öllu landinu sem lífeyrissjóðir og bankar sem sitja nú uppi með fullnustueignir gætu verið aðilar að. Í framtíðinni yrði þetta allt saman sett á almenningsmarkað og þar með væri komin viss fjölbreytni í íbúðamarkaðinn á Íslandi. Við hv. þingmaður erum sammála um að þetta eigi í besta falli að vera tímabundin ráðstöfun og þess vegna held ég að það væri æskilegt að hafa einhver sólarlagsákvæði í þessu frumvarpi sem kvæðu á um það hve langan tíma Íbúðalánasjóður hefur til að losa sig út úr þessu félagi. Eins og við þekkjum er tilhneigingin oft sú að menn stofni einhver félög undir ríkissjóði og svo gleymist þetta allt saman og er ekkert á radarnum hjá pólitíkusum sem oft hugsa bara í fyrirsögnum, getum við sagt. Það er engin trygging fyrir því að það verði unnið að því hratt og vel að losa sig við þetta. Þar fyrir utan tel ég að sú hugmynd að losa einfaldlega Íbúðalánasjóð undan þessu með því að (Forseti hringir.) ríkið taki þetta inn í einhvers konar eignarfélag væri jákvæð.