140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:35]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég held að ástæða sé til að þakka hv. þingmanni andsvarið og eftirfylgni hans með því máli sem hann fylgir hér úr hlaði. Ég vil fyrst af öllu þakka honum fyrir það og nefna það einnig, af því að hann nefndi atkvæðagreiðslu sem átti sér stað áðan varðandi Vaðlaheiðargöng, að 3. umr. og afgreiðsla um það mál er eftir þannig að ekki er endilega ástæða til fagnaðar fyrr en henni er lokið.

Ég vil enn fremur segja að oft og tíðum hnykkja menn á því í andsvörum og spyrja þann ræðumann sem gaf tilefni til andsvarsins eftir skoðun hans á því hver tiltekin fjárhæð eða viðmið ættu að vera, fullkomlega eðlilegar spurningar, en það er líka mjög hæpið að ætlast til mikils svars því að úr ræðustól Alþingis munum við ekki sjá um verðmyndun á fasteignum á markaði á Íslandi.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir þeim mismunandi sjónarmiðum sem eru annars vegar hjá fjármálafyrirtækjunum og hins vegar Íbúðalánasjóði, spurning mín snýr miklu fremur að hlutverki Íbúðalánasjóðs og hvaða tilgangi hann á að þjóna. Ég sé í rauninni engan mun á því hvort Íbúðalánasjóður er að lána einstaklingi til íbúðarkaupa fyrir 50–60 milljónir eða 20–30 milljónir. Í mínum huga snýst ákvörðunin miklu frekar um það hvaða hlutverki sjóðurinn á að gegna við lánsfjármögnun Íbúðalánasjóðs. Það er þannig sem ég horfi til þess. Aðstæður eru mjög breytilegar eftir svæðum, landshlutum eða sveitarfélögum í þeim efnum.

Ég treysti því að hv. þingmaður hafi lagst í mjög ítarlega rannsókn sem gaf honum þá niðurstöðu að 50 milljónirnar séu hin ágætasta tala sem hann hefur komist að niðurstöðu um.