140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það var eins og mig grunaði að það er kannski erfitt að nefna einhverjar ákveðnar tölur í þessu sambandi. Ég tók þetta dæmi inn í umræðuna einmitt vegna þess að þær tölur sem hafa verið uppi á borði eru mjög ólíkar og hvernig viðbrögðin eru sem ráðast auðvitað af því hverjir hagsmunirnir eru, og hvernig menn líta á þessa hluti út frá stöðu sinni og hagsmunum.

Ég nefndi að Félag fasteignasala mótmælti því sérstaklega og segði að þessi tala væri allt of lág og verið væri að útiloka aðra frá því að geta farið inn á þennan lánamarkað Íbúðalánasjóðs. Það liggur hins vegar fyrir að yfir 96% allra fasteigna á landinu eru gjaldgengar til lána úr Íbúðalánasjóði eftir sem áður.

Hins vegar telja Samtök fjármálafyrirtækja að þessi tala sé allt of há, ekki bara tvöfalt hærri en raun ber vitni heldur enn þá hærri og nefndu í samtölum við velferðarnefnd að kannski væri eðlileg tala 20 milljónir sem ætti að miða við þannig að það væri ekki verið að lána í gegnum Íbúðalánasjóð til húsnæðiskaupa vegna íbúða sem væru með fasteignamat yfir 20 milljónum. Það væri áhugavert að heyra hvað hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni þykir um slíka tölu.