140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það eru allir að passa sitt, sama hvort það eru fasteignasalar eða fjármálafyrirtæki, það eru allir að hugsa um sinn eigin stól í þessum efnum. Það er ekkert óeðlilegt við það að fasteignasalar vilji hafa þessa fjárhæð hærri, það gefur þeim meira svigrúm á markaði til þess að selja eignir og það er ekkert óeðlilegt við það að Samtök fjármálafyrirtækja vilji hafa þessa tölu sem lægsta því að það gefur þeim meira svigrúm til þess að fara á sínum forsendum inn á íbúðalánamarkað hér á landi.

Meginatriðið í mínum huga snýr að hlutverki ríkisins á þeim sama markaði. Hvert á hlutverk ríkissjóðs í gegnum Íbúðalánasjóð að vera varðandi lánveitingar til íbúðarhúsnæðis? Ég skal alveg viðurkenna að ég hef, af þeirri umræðu sem við höfum notið að hlýða á hér í dag um þetta mál, ekki áttað mig fyllilega á því hvert við ætlum að stefna í þeim efnum.

Það er alveg ljóst að á undanförnum árum, sérstaklega í þeirri miklu sprengju sem varð hér og hófst 2004 á íbúðamarkaði — og það voru fjármálafyrirtækin sem sprengdu hana í rauninni upp — var tilhneigingin sú hjá fjármálastofnunum á markaði að lána síður út á landsbyggðina. Íbúðalánasjóður var í því hlutverki miklu fremur en fjármálafyrirtækin að lána þangað út vegna íbúðarhúsnæðis. Það er í ljósi þess veruleika sem við verðum að ræða um þetta hlutverk sem Íbúðalánasjóður á að gegna. Það kallar að sjálfsögðu á miklu lengri umræðu en fært er í stuttum andsvörum þó svo að þau séu á allan hátt skemmtileg og upplýsandi.

Til að svara hv. þingmanni svona í lokin hefur mér alltaf þótt 20 milljónir falleg tala en ég veit ekki hvort það gagnast okkur í því að setja einhver hámörk eða lágmörk varðandi lánveitingar út úr Íbúðalánasjóði, ég dreg það mjög í efa.