140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum um húsnæðismál og er ætlunin meðal annars að bregðast við niðurstöðum Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi sjóðsins varðandi ríkisaðstoð. Þá eru lagðar til breytingar til að efla og skýra eftirlit Fjármálaeftirlitsins með sjóðnum og jafnframt eru lagðar til breytingar á lánveitingum sjóðsins er varða lán til einstaklinga annars vegar og hins vegar lán til leiguíbúða.

Varðandi þau ákvæði og það sem snýr að skipan stjórnar í þessu máli er í sjálfu sér ágætt að verið sé að setja hér inn ákvæði af þessu tagi. Vissulega er hér farið með mikla fjármuni og það er rétt að menn sem gegna stjórnarstörfum í þessum mikilvæga sjóði uppfylli ákveðin skilyrði og þeim sé skapaður sá starfsvettvangur að allt sé með fullnægjandi hætti og eftirlit sé fullnægjandi.

Varðandi þær athugasemdir sem hér er verið að reyna að svara varðandi Eftirlitsstofnun EFTA vekur þessi nálgun ákveðnar spurningar. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar hér fyrr í dag, framsögumanns þessa máls, þá á þetta mál sér langa sögu, allt frá árinu 2004. Það ætti auðvitað að kveikja spurningar hjá okkur um hvers vegna við erum að fá þetta mál inn í þingið svo seint og hvers vegna við gefum okkur, að mínu mati, stuttan tíma til að fara yfir það í velferðarnefnd fyrst sagan og aðdragandinn er svona langur.

Þá kvikna spurningar: Af hverju erum við ekki með frumvarp sem felur í sér ríkari og efnismeiri breytingar og dýpri hugsun varðandi sjóðinn í heild sinni, varðandi það hvernig Íbúðalánasjóður á að vera til framtíðar? Hverjum á hann að lána? Á hvaða sviði á hann að vera? Af hverju hefur þessari umræðu ekki verið hleypt af stað innan nefndarinnar? Mér finnst þetta vera spurningar sem við eigum að leyfa okkur að spyrja í umræðunni vegna þess að í gegnum tíðina hafa fjölmargir gert athugasemdir við starfsemi sjóðsins, og flestar þær erlendu eftirlitsstofnanir sem fylgjast með efnahagsmálum á Íslandi hafa ítrekað varað við þátttöku ríkisins í almennum íbúðalánum og hvatt til þess að starfsemi sjóðsins verði takmörkuð og horft sé þá einkum til þeirra sem hafa lágar tekjur eða þurfa af öðrum félagslegum ástæðum aðstoð frá hinu opinbera, þ.e. ríkinu, til að leysa sín húsnæðismál. Þetta er nokkuð sem hefur legið í loftinu í mörg ár og því til viðbótar má nefna að í umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um Íbúðalánasjóð í ákveðnum kafla er því atriði velt upp hvort heppilegt sé að fasteignalánastarfsemi sé á vegum hins opinbera. Þessum spurningum hefur vissulega verið varpað fram og þá vaknar sú spurning sem ég tel að við eigum að velta fyrir okkur í þessari umræðu: Af hverju höfum við ekki brugðist betur við og látið þessa umræðu fara fram?

Þeim athugasemdum hefur verið hreyft að vegna þess hve umfang Íbúðalánasjóðs hefur verið mikið í lánastarfsemi til fasteignakaupa á Íslandi — það má eiginlega segja að Íbúðalánasjóður hafi verið lykilaðili í að fjármagna fasteignakaup — hvers vegna hann sé undir yfirstjórn velferðarráðherra, hvers vegna hann sé ekki undir stjórn efnahags- og viðskiptaráðherra til að heildarsýn sé yfir fjármálakerfið. Þessi mikla markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs í að fjármagna fasteignakaup hér á landi hlýtur að segja okkur að annaðhvort á hann að vera í þeim bransa undir þeim formerkjum og þá undir yfirstjórn efnahags- og viðskiptaráðherra eða vera einfaldlega félagslegur sjóður sem vinnur innan ákveðinnar skilgreiningar sem félagslegur sjóður og getur þá verið undir yfirstjórn velferðarráðherra. Mér finnst við ekki alveg vera með það á hreinu hvort við viljum og hvað við ætlum að gera. Sjálfsagt eru skiptar skoðanir á því á milli flokka. Ég veit að Framsóknarflokkurinn hefur til dæmis lagt á það áherslu í gegnum tíðina að Íbúðalánasjóður verði undir stjórn velferðarráðherra og gerðar verði, að því er mér skilst, sem minnstar breytingar á sjóðnum.

Mér finnst rétt að við horfum svolítið á heildarmyndina fyrst við erum á annað borð að breyta lögum um sjóðinn. Ég hélt að hugsunin væri almennt sú í þinginu og umræða um það mundi fara af stað, en svo er ekki. Hér er verið að sýna lágmarksviðbrögð við athugasemdum Eftirlitsstofnunarinnar. Af hverju erum við að því? Eru þessar athugasemdir ekki eitthvað sem við teljum vert að hlusta á? Eru þessar athugasemdir ekki eitthvað sem við teljum rétt að bregðast við? Var ekki hluti af þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á fjármálastarfsemi hér á landi fyrir hrun að við hlustuðum ekki á viðvörunarraddir og ábendingar sem okkur bárust frá eftirlitsaðilum? Ég spyr því: Höfum við eitthvað lært? Ég átta mig ekki alveg á því, frú forseti. Stundum finnst mér eins og við höfum einfaldlega ekki lært nokkurn skapaðan hlut.

Athyglisvert er að fara aðeins yfir umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins við þetta frumvarp. Þar er farið yfir öll helstu atriðin. Grípum hérna aðeins niður, því að ég hef ekki eytt miklum tíma í það hér, í lánveitingar er varða leiguíbúðir, þ.e. lánveitingar til leiguíbúða. Hér er gert ráð fyrir því að lánveitingar til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka verði takmarkaðar við það að félögin séu ekki rekin í hagnaðarskyni. Það er svo sem ágætt að þessir aðilar hafi það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis. Hér er verið að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA sem er svo sem ágætt. En afleiðingarnar að mati ráðuneytisins verða þær að draga muni mjög úr lánveitingum sjóðsins til leiguíbúða, sem segir okkur að sjóðurinn hefur verið starfandi á samkeppnismarkaði á þessu sviði og við því er verið að bregðast. Þá er spurningin: Áttum við okkur alveg á því hvað stendur þá eftir? Munu þessi ákvæði hafa það þrengjandi áhrif að lánveitingar muni dragast of mikið saman? Ég átta mig ekki alveg á heildarmyndinni en ráðuneytið bendir alla vega á að þarna muni verða verulegur samdráttur.

Mig langar að vekja aðeins athygli á nokkrum umsögnum sem komu um þetta mál. Við fengum á fund nefndarinnar fulltrúa frá Samtökum fjármálafyrirtækja og svo auðvitað frá ráðuneytinu og Íbúðalánasjóði og nokkrum fleiri aðilum, eins og tínt er til í nefndaráliti meiri hlutans. Í þeirri umræðu kom fram að menn, annars vegar hjá fjármálastofnunum og hins vegar hjá Íbúðalánasjóði, greinir á um hvort um markaðsbrest sé að ræða.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór hér ágætlega yfir skilgreininguna á því hvað markaðsbrestur er, en svo virðist sem Eftirlitsstofnun EFTA hafi fallist á það að hér á landi sé tímabundinn markaðsbrestur sem virkar með þeim hætti að eðlilegt sé að Íbúðalánasjóður sé starfandi vegna þess, að því er mér skildist af umfjöllun nefndarinnar, að ástandið eftir hrun sé slíkt að fjármálastofnanir láni almennt ekki til fasteignakaupa á allri landsbyggðinni. Þá spyr maður: Er verið að tala um markaðsbrest á öllu landinu eða erum við að tala um markaðsbrest á völdum svæðum á landsbyggðinni eða um hvað er verið að tala?

Fjármálastofnanirnar könnuðust ekki við að ekki væri lánað til íbúðakaupa og lögðu fram tölur um hversu mikið fjármagn hefur verið veitt eða lánað til að fjármagna fasteignakaup. Það kemur fram í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja að það meginsjónarmið hefði legið til grundvallar svari íslenskra stjórnvalda til Eftirlitsstofnunar EFTA að fullyrt var að markaðsbrestur væri í framboði á lánsfé til íbúðaviðskipta og íbúðabygginga. Ástæðan fyrir því væri veikleikar og vantraust á fjármálafyrirtæki í kjölfar fjármálahrunsins og að fjármálafyrirtæki hefðu almennt ekki verið reiðubúin að veita lán nema helst í þéttbýli, þess vegna væri nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður væri starfandi með þeim hætti sem hann hefur starfað.

Samtök fjármálafyrirtækja taka ansi djúpt í árinni og fullyrða að hvorug þessara fullyrðinga eigi við rök að styðjast. Samtök fjármálafyrirtækja segja í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir fall bankanna í október tókst endurreisn nýju bankanna það vel að þeir voru starfhæfir nánast frá fyrsta degi. Óvissa var þó fram eftir ári 2009 meðan gengið var frá samningum um mat yfirtekinna eigna …“

Svo segir:

„Þrátt fyrir þetta hóf til dæmis Landsbankinn þegar í maí 2009 að veita ný óverðtryggð íbúðalán. Meðfylgjandi tafla sýnir fjölda kaupsamninga samkvæmt þjóðskrá, fjölda almennra lána ÍLS og fjölda lána þriggja stærstu bankanna og fyrirrennara þeirra. Eins og sést var markaðshlutdeild bankanna þriggja um helmingur árið 2007, um fjórðungur árið 2008 en 7% árið 2009 þrátt fyrir erfiðleika. Árinu 2010 var hlutdeild bankanna komin yfir 10% og á árinu 2011 var hlutdeild bankanna yfir 30%.“

Við sjáum að það er ekki hægt að segja annað en að fjármálastofnanir séu að lána til íbúðakaupa. Þá er spurningin: Erum við að fara of hratt í að lögfesta eða innleiða þetta frumvarp í íslenska löggjöf? Eigum við frekar að sjá til hvernig hlutirnir þróast, eins og hv. þm. Lúðvík Geirsson sagði og fullyrti í ræðu sinni áðan að umtalsverð endurskoðun væri fram undan og yfirstandandi gagnvart sjóðnum? Þá spyr ég: Hefði ekki verið hægt að vísa einfaldlega til þeirrar vinnu og segja að í henni yrði meðal annars horft til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA með það fyrir augum að mæta þeim athugasemdum sem þar koma fram þegar fyrir lægi niðurstaða þeirrar vinnu sem hv. þm. Lúðvík Geirsson vísaði til og farið væri í heildarendurskoðun á löggjöfinni um sjóðinn? Hefði það ekki verið réttari nálgun en að fara með þetta frumvarp í gegnum þingið? Ég ítreka það, vegna þess sem kom fram í ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar, að vissulega var málið tekið fyrir í nefnd og kallaðir til gestir en ég tek fram að það var tekið út í ósátt við minni hluta nefndarinnar.

Eftir 2. umr. kallaði hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir eftir því að nefndin færi yfir þetta mál í samráði við Evrópusérfræðinga sem gætu ráðlagt okkur um það hvort hér væri nægilega vel komið til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA eða ekki. Við því var ekki orðið. Það var einfaldlega látið duga að kalla til fulltrúa velferðarráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs sjálfs.

Ég hefði kosið, frú forseti, að þetta mál hefði fengið lengri tíma og meiri umfjöllun í velferðarnefnd fyrst það er búið að vera í pípunum síðan 2004. Ráðuneytið hefði hugsanlega getað lagt frumvarpið fram strax sl. haust þannig að nefndinni hefði gefist tími í vetur til að fara ítarlega yfir málið. Sá vani er afskaplega hvimleiður sem virðist vera hjá stjórnvöldum að leggja mál fram það seint að ekki gefist tími til að fara gaumgæfilega yfir þau og síðan er þess einfaldlega krafist að við afgreiðum mál sem mörg hver hafa, að mínu mati, ekki fengið nægilega umfjöllun í nefndum þingsins. Það er allt að því talinn dónaskapur að óska eftir frekari skýringum, fleiri gestum og ég tala nú ekki um, eins og kom fyrir hér í morgun, að fá að taka til máls um mál og veita andsvar.