140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá meiri hluta hv. velferðarnefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál. Auk þess er nefndarálit frá minni hluta velferðarnefndar sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sendir inn með breytingartillögu.

Eins og ég ræddi í 1. umr. er Íbúðalánasjóður ein stærsta lánastofnun landsins og örugglega sú stærsta á sviði íbúðalána. Hún veitir þar af leiðandi öðrum lánastofnunum mikla samkeppni og sú athugasemd frá ESA sem við ræðum hér grundvallast á því að reyna að bæta samkeppnisstöðu annarra aðila sem eru á markaðnum.

Frumvarpið sem við ræðum tekur á ýmsum þáttum sem eru sjálfsagðir eins og hæfisskilyrði stjórnarmanna. Það hefur farið vaxandi eftir hrun að sett séu hæfisskilyrði varðandi forstjóra og stjórnarmenn, og stjórnunarmenn eða forsvarsmenn lífeyrissjóða, og mér finnst alveg sjálfsagt að það eigi við um þessa lánastofnun eins og aðrar lánastofnanir. Það má líka nefna að það er nokkuð síðan að Íbúðalánasjóði var veitt heimild til að lána óverðtryggt. Það gekk svona og svona, mjög hægt og rólega, og þetta sýnir hvað opinberar stofnanir, opinber stjórnsýsla og Alþingi, eru svifaseinar og lengi að taka upp svona sjálfsagða hluti. Nú eru bankarnir búnir að skjóta Íbúðalánasjóði ref fyrir rass í þessu því þeir tóku upp óverðtryggð lán fyrir nokkru síðan og eru komnir meira að segja með ýmiss konar vöru á þeim markaði sem hafa notið mikillar hylli, t.d. hámark á óverðtryggða vexti o.s.frv. Sumt af því minnir reyndar á verðbótaþátt vaxta sem einu sinni var tekinn upp og var óskaplega flókinn og illskiljanlegur og enginn skilur enn, en það er önnur saga.

Íbúðalánasjóður hefur ekki tekið upp óverðtryggð lán enn þá, ætlar að gera það í haust. Þetta er eins og risaeðla sem hreyfir sig afskaplega hægt og missir þar af leiðandi af bitunum sem einkabankarnir eru að fá með því að sópa til sín íbúðakaupendum með óverðtryggðum lánveitingum sem eru mjög vinsælar í dag vegna þess að það hefur verið ákveðinn áróður gegn verðtryggingu. Öll lán Íbúðalánasjóðs eru og hafa verið verðtryggð þó að þessi heimild sé til staðar.

Ég spurði um það í andsvari við hv. þm. Eygló Harðardóttur af hverju ekki kæmi fram breytingartillaga um það að Íbúðalánasjóður lánaði eingöngu óverðtryggt, þ.e. hætti að lána verðtryggt. Það ætti að vera í anda þeirra sem segjast vera að berjast gegn verðtryggingu. Ég er dálítið undrandi á því að í meðförum nefndarinnar og meðförum Alþingis skuli ekki koma fram þessi hugmynd að afnema verðtryggingu hjá Íbúðalánasjóði og láta hann lána eingöngu óverðtryggt. Það skyldi þó ekki vera að menn séu einmitt hræddir við ókosti óverðtryggðra lána sem eru þó nokkuð miklir. Það sýndi sig einmitt í hruninu að fyrir heimilin var ágætt að hafa verðtryggt lán þegar verðbólgan fór upp í 18 eða 20%. Þá hefðu óverðtryggðir vextir þurft að vera 20% yfir árið og það hefði riðið flestum heimilum að fullu að borga 20% af lánunum eingöngu í vexti. Nema að meiningin með þessari umræðu um verðtryggingu sé að hlunnfara sparifjáreigendur en það er ekki óvenjulegt í þessu landi að sparifjáreigendur séu hlunnfarnir. Það var gert í 30 ár og þótti mikil íþrótt.

Samkvæmt ákvörðun Alþingis ákvað ríkissjóður að veita Íbúðalánasjóði 33 milljarða og það er lítið talað um það í þessu samhengi. Ég benti á það í 1. umr., en því miður hefur sú ábending ekki skilað sér í nefndarálit meiri hlutans, að menn reyndu að greina hvers vegna var verið að borga 33 milljarða til Íbúðalánasjóðs sem er með ein öruggustu lán sem til eru, þ.e. íbúðalán, því fólk lætur það yfirleitt ganga fyrir öllu öðru að borga af íbúðunum sínum. Það hefur sýnt sig víða um heim að það eru íbúðalánin sem eru öruggust á meðan þau eru með sæmilegu veði. Ég ætla ekki að tala um það fyrirbæri sem var í Bandaríkjunum þegar menn voru að lána með mjög hættulegum hætti. Þetta hefur ekki ratað inn í nefndarálitið en ég tel að það hefði verið alveg nokkurra setninga virði vegna þess að ástæðan fyrir þessum 33 milljörðum er sú að Íbúðalánasjóður er ekki með sambærileg kjör á þeim skuldabréfum sem hann gefur út og þeim lánveitingum sem hann veitir þótt það sé mjög auðvelt að koma því við.

Húsbréfin sem voru í gildi einu sinni voru með útdráttarheimild þannig að Íbúðalánasjóður gat dregið meiri bréf út ef hann þurfti að greiða eitthvað út en sá möguleiki hvarf og menn breyttu ekki útlánastefnunni með hliðsjón af því að menn gætu lent í því að fá miklar inngreiðslur. Mér finnst það sýna enn einu sinni hversu svifasein og þunglamaleg þessi stofnun er að hún skuli ekki gæta sín á þessari áhættu. Helsta áhætta Íbúðalánasjóðs er að það verði miklar uppgreiðslur. Ég óttast það núna þegar bankarnir eru komnir á undan Íbúðalánasjóði með óverðtryggðu lánin og vinsældir þeirra eru miklar að mjög margir muni sjá sér leik á borði. Þeir eru sennilega að því núna, frú forseti, án þess að ég viti það nákvæmlega, og taka óverðtryggð lán í banka og greiða upp verðtryggða lánið sitt hjá Íbúðalánasjóði vegna þeirrar neikvæðu umræðu og að mínu mati óréttmætrar neikvæðu umræðu sem hefur verið um verðtryggingu. Verðtrygging hefur nefnilega kosti og galla. Ég hugsa að sjóðurinn sé í þeirri stöðu að hann sitji uppi með mikið fé sem hann nær ekki ávöxtun á í samræmi við þau skuldabréf sem hann hefur selt til að fjármagna starfsemi sína þegar hann þurfti á peningum að halda. Hann sé því núna með neikvæðan vaxtamun og sá vaxtamunur lendir bara á einum stað, frú forseti, hjá skattgreiðandanum, hjá ríkissjóði og er ekki bætandi á þá stöðu. Ég hefði viljað að nefndin skoðaði þetta pínulítið en hún gerði það ekki þótt henni hefði verið bent á það í 1. umr., ég fór mjög nákvæmlega í gegnum þetta.

Ég benti líka á að hér hefur lítið verið framkvæmt síðan nokkuð fyrir hrun. Það má segja að 2009 hafi verið síðasta árið sem eitthvað var byggt af viti af íbúðum á Íslandi. Það má segja að árið 2007 hafi verið offramboð á íbúðum en 2008 var þokkalegt eða frekar lélegt en eftir það hefur verið alger ördeyða, að minnsta kosti miðað við lánveitingar Íbúðalánasjóðs. Ég óttast að við munum standa frammi fyrir því eftir ekki mjög langan tíma, jafnvel mjög skamman tíma, að það vanti íbúðir. Það var byggt of mikið af íbúðum fyrir hrun, að einhverju leyti fóru þær í að hýsa mikinn fjölda af erlendu verkafólki en það hefur síðan flutt brott þannig að það losnaði eitthvað um íbúðir. Þær eru reyndar ekki alveg eins góðar og það sem Íslendingar sætta sig við. Eftir það hefur lítið verið byggt. Hver árgangur er um 4.000–4.500 manns og þegar tekið er tillit til þess að sá hópur parast eitthvað þarf sennilega um 2.000 íbúðir fyrir unga fólkið á hverju ári. Eitthvað kemur til baka á markað af íbúðum þeirra sem falla frá en það er töluvert minna og miklu lélegra húsnæði. Það þarf því örugglega að byggja á Íslandi 1.500–2.000 íbúðir á ári, og það hefur alls ekki verið gert. Við munum lenda í því innan ekki mjög langs tíma að það verður skortur á íbúðum. Hækkandi leiga virðist benda til þess og líka hækkandi verð á íbúðarhúsnæði þótt þar spili náttúrlega inn í neikvæðir vextir og ofurskattlagning fjármagnstekna og ótti sparifjáreigenda við nýtt hrun bankanna. Við þær aðstæður leita menn inn á íbúðamarkaðinn og síðustu eitt eða tvö árin hefur verðið hækkað umfram verðbólgu. Það bætir reyndar veðstöðu Íbúðalánasjóðs og bankanna en ég óttast að við lendum í svona skelli.

Svo er hér breytingartillaga um að stofna megi leigufélag. Það finnst mér ekki góð hugmynd. Mér finnst allt í lagi að Íbúðalánasjóður stofni leigufélag en hann á að reyna að selja það sem allra fyrst því það fer ekki saman að lána til leigufélaga með sérstökum lánaflokki og vera jafnframt í samkeppni við þá sömu leigusala. Það fer ekki saman, og jafnvel þótt maður reyni að byggja upp eldveggi á milli eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir gerir með breytingartillögu sinni og rökstyður í nefndaráliti sínu hefur það sýnt sig að þeir halda ekki alltaf.

Uppgreiðsluáhætta sjóðsins er ekki löguð í þessu frumvarpi þótt bent hafi verið á hana. Það getur vel verið að það verði þá vandamál með nýjar ríkisskuldbindingar Íbúðalánasjóðs.

Það sem ég ætlaði að ræða um er krafan um að lánveitingar til leiguhúsnæðis fari aðeins til fyrirtækja sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Það er greinilegt að menn skilja ekki í hverju vandinn liggur. Vandinn liggur í því að einhver byggingameistari byggði kannski 200 íbúðir og sat uppi með þær óseldar á þeim tíma. Hann mundi reyndar ekki gera það í dag eða mjög ólíklega en sú staða gæti komið upp aftur. Hvað gerir hann þá? Þá stofnar hann leigufélag sem starfar án hagnaðarmarkmiða og kaupir af honum íbúðirnar og leigufélagið fær lán frá Íbúðalánasjóði til að kaupa íbúðirnar af honum. Hann á að sjálfsögðu þetta leigufélag og hann ræður verðinu nokkurn veginn og hefur það huggulega hátt þannig að hann sleppi óskaðaður, jafnvel þótt hann fái ekki nema 90% lán eins og hér er gert ráð fyrir. Hann hefur þá bara verðið 10% hærra. Þannig fær hann í raun greitt það verð sem hann þarf á að halda og losnar við allar íbúðirnar. Svo þegar íbúðirnar seljast ekki eða leigjast ekki fer þetta leigufélag á hausinn og þá skiptir engu máli hvort það er sjálfseignarstofnun eða fyrirtæki sem ekki er með hagnað. Það geta allir stofnað sjálfseignarstofnun. Það geta allir stofnað félag sem hefur göfugan tilgang. Það er bara að hóa saman nokkrum mönnum og þá stofna þeir hið göfugasta félag í kristilegum anda til að kaupa íbúðir af eigendunum og Íbúðalánasjóður lánar blint samkvæmt lögunum til slíkra kaupa. Ég benti á þetta atriði en meiri hlutinn hefur annaðhvort ekki heyrt það eða ekki tekið það til greina. Ég sakna dálítið í nefndarálitinu að ekki skuli vera tekið mið af þeirri umræðu sem fór fram um þetta. En hér er mikil áhersla lögð á hæfisskilyrði.

Það hefur verið bent á það í umræðunum að þessar úrbætur séu frekar hraðsoðnar, menn hafi brugðist seint við og það er svo sem ekkert nýtt, frú forseti. Við erum vön þessari frábæru verkstjórn hæstv. ríkisstjórnar og mál eru unnin seint. Athugasemdir ESA koma í júlí 2011 og við erum núna að ræða viðbrögð við þeim og jafnvel gera þau að lögum og sumir telja að það hafi ekki verið tekið mið af öllum athugasemdum ESA. Það væri gaman að heyra frá nefndarmönnum sem eru viðstaddir umræðuna, ég sé að framsögumaður er hérna staddur, hvort nefndin hafi farið í gegnum þessar athugasemdir ESA og fengið það fram hvort allar þær kröfur séu uppfylltar. Ég vil síðan nefna að það vantar bæði umsögn ESA og annarra um að það er ekki bara ríkisábyrgðin sem gera má athugasemdir við og ekki bara eigendaábyrgð, vaxtaniðurgreiðsla og annað slíkt heldur er CAD-hlutfallið hjá Íbúðalánasjóði líka töluvert mikið lægra en hjá bönkunum. Það er 16% hjá bönkunum samkvæmt ákvörðun ríkisvaldsins sem á bankana, þarf að vera 8% en síðast þegar ég vissi var það ekki nema 5% hjá Íbúðalánasjóði og það er líka brot á samkeppnisreglum.